Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Það er eins og sleggju sé bankað undir iljarnar
Meðal þeirra mynda sem Agnar birti með færslu sinni á Facebook.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 11. nóvember 2023 kl. 11:05

Það er eins og sleggju sé bankað undir iljarnar

Göngugarparnir Agnar Guðmundsson og Hjálmar Árnason höfðu viðkomu í Grindavík í gær en þeir félagar höfðu ætlað sér að ganga á fjöll í nágrenninu. Eftir að hafa orðið vitni að þeim atburðum sem voru að eiga sér stað í Grindavík ákváðu þeir að snúa við – annað hefði verið taktlaust. Við þeim blasti bitur alvarleikinn, verið var að flytja fólk á brott af heimilum sínum, skemmdir á mannvirkjum og jarðskjálftarnir með allt öðrum hætti en aðrir íbúar nágrannasveitarfélaganna hafa verið að upplifa. Agnar skrifaði færslu á Facebook eftir þessa upplifun og má sjá hana hér að neðan.

„Mann situr hljóðan. Heimsókn til Grindavíkur í gærkvöldi með Hjálmari Árnasyni hefur haft djúp áhrif á mig, ég er sorgmæddur og auðmjúkur gagnvart þessum gríðarlegum öflum sem enn eiga eftir að láta sjá sig á yfirborðinu.

Til að setja þetta í eitthvað samhengi, þá eru skjálftarnir þarna með allt öðrum hætti en maður upplifði í Keflavík, þeir eru stöðugir, byggingarnar sveigjast og bara hreinlega brotna, annar helmingurinn fer í eina átt og hinn í allt aðra. Hurðar lokast ekki, lagnir rofna. Sumir skjálftarnir eru beint undir fótum manns og hreinlega hrinda manni - ekki til hliðar, heldur tekur maður stökk, þráðbeint upp í loft. Það er eins og sleggju sé bankað undir iljarnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svo er það æðruleysið, fólk í viðkvæmri stöðu er flutt í burtu, hefur með sér í poka helstu eigurnar, lyf, nokkrar persónulegar myndir, þau eru flutt frá þeim stað sem er þeirra heimili, félagsskapur, öryggi, þaðan sem það upplifið alúð, ást, vináttu og er í nálægt við fjölskyldu og ástvini. Stundum eru þau flutt í burtu, upp í sveit var sagt, af ástvinum, stundum á aðra viðeigandi stofnun, fjarri heimabyggðinni sem hugsanlega verður ekki sú sama.

Svo er það fólkið, sem hefur styrk, líkamlega burði til að aðstoða, þetta eru sjúkraflutningafólkið, starfsfólk Víðihlíðar, þetta eru lögreglumenn, slökkviliðið, starfsmenn bæjarins, makar og vinir, þeir bera ekki utan á sér að þeir eru í erfiðri stöðu, sendir beint á staði sem hafa verið í fréttunum, maður hélt þeir væru mannslausir, fjarstýrðir, en þeir eru sendir þangað, það þarf að slökkva elda, að laga lagnir sem hafa farið í sundur. Þeir eru líka að aðstoða fólkið sem hefur ekki burði til að fara sjálft.

Skemmdirnar eru gríðarlegar á mannvirkjum, það er þó það minnsta.

Fréttamenn, sagan er myndfest, viðtöl tekin við fólk, sjúkraflutningsfólkið biður fréttamennina að taka ekki myndir af fólki sem er í viðkvæmri stöðu, hleypa þeim ekki inn á hjúkrunarheimilið. En þau eru samt að gera samfélagslega mikilvægt starf, mynda skemmdir, flytja fréttir, setja puttann á púlsinn, hvar eru skemmdir, hvað er verið að gera. Bylgjan og Stöð 2 voru áberandi.

Við Hjálmar Árnason ætluðum að fara þarna og hugsanlega labba á eitthvað fjall. En þegar við komum til Grindavíkur vorum við fljótir að átta okkur á því hversu taktlaust það hefði verið.

Í dag - er það óvissan. Í dag - dvelur hugur minn hjá Grindvíkingum.“

Hjálmar Árnason og Agnar Guðmundsson höfðu áætlað að ganga á fjöll í nágrenni Grindavíkur en þeir eru duglegir við að fara í lengri eða styttri göngur saman.