TF-CAT komin til landsins
WOW air tók á móti glænýrri Airbus A321ceo þotu en hún kom til landsins síðastliðinn laugardag. Flugvélin kemur beint frá verksmiðju Airbus í Hamborg og verður strax notuð í áætlunarflug félagsins. Vélin ber heitið TF-CAT og er nefnd til heiðurs fjölskyldukettinum. Í vélinni eru 208 sæti og þar af átta svokölluð „Big Seat“ sem eru breiðari sæti með meira sætabili.
Þessi gerð véla er talin afar rúmgóð miðað við aðrar gerðir í þessum stærðarflokki. Hún er einnig með auka eldsneytistönkum og hentar því vel í flug til Norður-Ameríku.
Þetta er átjánda vél WOW air en fyrir lok árs 2018 mun floti félagsins samanstanda af 24 nýjum Airbus flugvélum.
„Við tökum spennt á móti þessari nýju viðbót í flota WOW air. Það er ánægjulegt að geta boðið farþegum okkar upp á að fljúga í glænýrri flugvél á jafn góðum kjörum og raun ber vitni,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air.