Teymi lögreglu- og sjúkraflutningamanna með daglega viðveru á gosstöðvunum
Minnisblað Almannavarna með tillögum að daglegu viðbragði m.t.t. öryggis- og almannavarnasjónarmiða vegna gosstöðvanna í Meradölum var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Í minnisblaðinu leggja Almannavarnir fram tillögur er snúa að því að tryggja daglega, viðunandi viðveru og viðbragð lögreglu og annarra viðbragðsaðila á gosstöðvunum í Meradal. Jafnframt að aðgengi viðbragðsaðila til og frá gosstöðvunum verði viðunandi, bæði fyrir gangandi og björgunartæki.
Í tillögunni kemur jafnframt fram að starfrækt verði teymi lögreglu- og sjúkraflutningamanna til löggæslu og aðstoð við slasaða og sjúka, teymi landvarða til landvörslu og markvissari upplýsingamiðlun til ferðamanna og teymi starfsmanna á vegum landeigenda til að sinna aðstoð og leiðbeiningum varðandi lagningu bifreiða. Þá er lagt til að á gosstöðvunum verði tvö teymi með daglega viðveru, annars vegar með tveimur lögreglumönnum og hins vegar með lögreglumanni og sjúkraflutningamanni. Viðvera er breytileg en miðist við tvo tíma fyrir sólarupprás og tvo tíma eftir sólarlag alla virka daga og um helgar. Hún tekur jafnframt mið af stöðunni hverju sinni og verkefnum. Áætlað er að teymin taki til starfa 23.-26. ágúst 2022.
Almannavarnir óskuðu eftir samantekt frá Vegagerðinni og Fjarskiptastofu um mikilvægi innviða ásamt tillögum um vernd eða tjónminnkandi aðgerða. Meðfylgjandi þessum línum eru minnisblöð frá báðum aðilum.