Tengsl sem aldrei hverfa
Fósturforeldrar sinna mikilvægu hlutverki við að móta og bæta líf barna.
Skortur er á fósturforeldrum í tímabundnu og styrktu fóstri á Suðurnesjum. Félagsráðgjafi hjá fjölskyldu- og félagsþjónustusviði Reykjanesbæjar segir það sýna samfélagslega ábyrgð að láta á reyna að gerast fósturforeldri. Þótt fóstur sé alltaf neyðarúrræði er það mikilvægt innlegg í velferð og framtíð barnanna, þó ekki sé um að ræða langan tíma.
„Að vera fósturforeldri felst í grófum dráttum í að veita húsaskjól, öryggi, hlýju, hafa samskipti við skóla, frístundir og slíkt. Það er ekki verið að biðja um neitt meira en eðilegt og gott heimili. Leyfa börnunum að fá að vera hluti af virkri fjölskyldu, veita þeim ummönnun og aðstoð og láta gott af sér leiða,“ segir Þórdís Elín Kristinsdóttir, félagsráðgjafi hjá fjölskyldu- og félagsþjónustusviði Reykjanesbæjar.
Unnið í því að börnin geti farið heim
„Ef barn fer í tímabundið fóstur þá er sá tími nýttur í að setja börn og foreldra í þá stöðu að þau geti búið saman. Tímabundið fóstur getur varað frá einhverjum vikum upp í ár. Svo er hægt að framlengja því um ár en eftir það er um að ræða varanlegt fóstur. Þá þurfa foreldrar að afsala sér forsjá til Barnaverndar, sem er nýtt í lögum. Áður gátu börn verið í varanlegu fóstri og foreldrar haldið forsjá og málin þá unnin í samvinnu,“ segir Þórdís. Styrktarfóstur er í 6 mánuði í senn, en hægt að framlengja um 6 mánuði og það er fyrir börn sem eru með mikinn hegðunarvanda og/eða geðrænan vanda. „Þá er unnið í því að þau geti farið aftur heim. Oft er þá verið að vinna með foreldra og börn, en fyrst og fremst barnið.“
Sumum léttir við að fara í varanlegt fóstur
Þórdís segir upplifun hennar sé að það sé erfiðara að koma börnum í fóstur, þ.e.a.s. vissum börnum og unglingum. Þetta sé flóknara en fólk heldur. „Það er ekki endilega að það vanti heimili. Það er einfaldlega krefjandi að setja 15 ára gamalt barn í fóstur. Það er búið að mynda tengsl við foreldra sína og svo á allt í einu að senda það út í fóstur - jafnvel út á land. Það er í raun erfiðara að finna rétta fósturheimilið, sem hentar hverjum og einum. Það getur jafnvel verið vandasamt að undirbúa tímabundið fóstur. Tengingin við fósturforeldrana verður stundum ekki eins mikil því börnin vita að þau verða bara tímabundið á nýju heimili og erfiðara að vinna að því að bæta aðstæður barnanna. Það getur svo skapað önnur vandamál í samskiptum. Sumum börnum hefur létt við að fara úr tímabundnu fóstri í varanlegt fóstur, því þá er hægt að fara almennilega að vinna með þeim að bættum aðstæðum.“
Búið að reyna öll stuðningsúrræði áður
Langur, en þó mislangur, aðdragandi er að hverju fóstri fyrir sig. „Það er almennt búið að reyna öll stuðningsúrræði áður. Það fer líka eftir aldri barns en hvert og eitt barn er einstakt,“ segir Þórdís og bætir við að reynt sé af fremsta megni að hafa systkini á sama stað nema að hagsmunum þeirra sé þannig varið að umönnunin sé betri ef tekið er við einu barni en fleirum. „Stundum er um að ræða ættingjafóstur, t.d. ömmu og afa. Systkini eru kannski ekki samfeðra og eiga endilega sömu ættingja.“
Leyft að njóta sömu tækifæra
Þau sem vilja gerast fósturforeldrar sækja um leyfi til Barnaverndarstofu. Þangað þarf að skila öllum tilskyldum pappírum eins og læknisvottorði, sakavottorði, skattaskýrslu og umsögn barnaverndarnefndar í hverju bæjarfélagi sem hefur gert úttekt á heimilinu. Barnaverndarstofa tekur svo endanlega ákvörðun. Eftir það fara væntanlegir foreldrar á undibúningsnámskeið sem nefnist Foster-Pride. „Þetta er spurning um að vilja láta gott af sér leiða. Þetta er krefjandi, en ef fólk hefur eitthvað að gefa þá er um að gera að leyfa þessum börnum að njóta þess að fá mögulega sömu tækifæri í lífinu og önnur börn. Sýna samfélagslega ábyrgð bara með því að vera til staðar,“ segir Þórdís.
Tilfinningarnar lagðar undir
Þórdís segir að misjafnt sé hvort um sé að ræða barnlaust fólk, fólk með uppkomin börn, ömmu og afa eða fólk með börn sem gerist fósturforeldrar. „Þetta er vinna sem gefur mikið á annan hátt en fjárhagslega. Ég hef hitt fósturforeldra sem taka við börnum sem verða síðan alltaf hluti af fjölskyldunni. Það er verið að leggja inn fyrir framtíð barnanna, þó ekki sé um að ræða langan tíma. Oft reynist fólki erfitt þegar börnin fara vegna þess að það er verið að leggja tilfinningarnar undir. Ég vil samt hvetja fólk til að kynna sér þetta aðeins og láta slag standa. Samfélaginu öllu til heilla. Við getum öll lagst á eitt,“ segir Þórdís.
VF/Olga Björt