Tengivegi fyrir neyðarbíla lokað vegna umferðarlagabrota
Þegar nýtt hringtorg og nýr tengivegur fyrir Flugvallarveg, Skólaveg og Iðavelli voru sett upp þá sáu rekstraraðilar fyrir neyðarbíla þann kost að það væri hægt að nota gamla veginn á „Nikkelsvæðinu“ sem tengiveg fyrir neyðarbíla upp á Reykjanesbraut svo að útkallstíminn myndi styttast inná brautina.
Með því myndi útkallstíminn til Sandgerðis, Ásbrúarsvæðið, Voga og til Reykjavíkur styttast. Á veginn voru settar þrengingar og skilti sem sýndi allur akstur væri bannaður nema fyrir sjúkrabíla.
Ekki stóð þessi stytting fyrir neyðarbíla lengi yfir vegna þess að það fóru margir aðrir ökumenn að nýta sér þennan veg og valda þar af leiðandi slysahættu bæði við Iðavelli/Flugvallaveg og Flugvallaveg/Reykjanesbraut. Nú er búið að taka þá ákvörðun að loka veginum (styttingunni) endanlega áður en það verður slys þarna af völdum ökumanna sem ekki virtu umferðarreglur.
Þetta líta slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn alvarlegum augum þar sem þetta getur skipt sköpum þegar um lífsspursmál er að ræða en skilja það líka að ekki er hægt að hafa þennan veg opinn ef almennur borgari getur ekki virt þær umferðarreglur sem gilda og áður en það hlýst af alvarlegt slys á veginum, segir á vef Brunavarna Suðurnesja.
Mynd: Búið er að loka veginum. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson