Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Telur uppbyggingu í Helguvík dýru verði keypta
„Þegar illa árar hjá sveitarfélögum verðum við að passa okkur á því að leggjast ekki of lágt í þeirri viðleitni að fá hvers kyns atvinnutæki inn í sveitarfélögin.“
Miðvikudagur 3. maí 2017 kl. 14:12

Telur uppbyggingu í Helguvík dýru verði keypta

- Þingmaður Pírata lagði fram fyrirspurn á Alþingi um ívilnunarsamninga United Silicon við ríkið

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi, lagði í gær fram fyrirspurn á Alþingi um það hve háa ríkisaðstoð United Silicon hefur fengið á grundvelli fjárfestingarsamnings við ríkisstjórn Íslands frá 9. apríl 2014. Þá spurði hann líka um það hvort United Silicon hafi skilað árlegum skýrslum til ráðuneytisins, líkt og kveðið er á um í samningum og hvort skýrslurnar verði birtar opinberlega. Fyrirspurninni beindi þingmaðurinn til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar og hefur ráðherrann 15 virka daga til að svara.

Rætt var við Einar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann að United Silicon ætti rétt á styrk að upphæð 506 milljónir. „Það finnst mér safarík upphæð, verð ég að segja.“ Einar sagði upplýsingar um ríkisaðstoð til United Silicon þó ekki breyta miklu um umræðuna um United Silicon. „Við erum komin af stað í leiðangur sem við vitum ekki hvar endar. Það er svolítið sárt að horfa upp á það hvernig þetta mál hefur þróast. Það væri hollt að fá allar upplýsingar um þetta mál upp á borðið,“ sagði Einar í viðtali við Morgunútvarpið í morgun. Þá sagði hann ívilnunarákvæðin ekki hafa farið hátt á sínum tíma en að núna þegar í óefni væri komið væri gott að rifja málið upp og hafa sem víti til varnaðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar illa árar hjá sveitarfélögum verðum við að passa okkur á því að leggjast ekki of lágt í þeirri viðleitni að fá hvers kyns atvinnutæki inn í sveitarfélögin.“ Þá kvaðst Einar hafa samúð með því fólki sem þrýsti á um að kísilverksmiðjan yrði staðsett í Reykjanesbæ til að fjölga atvinnutækifærum að rétta fjárhag bæjarfélagsins við. Sú viðleitni hafi verið dýru verði keypt.

Hér má hlusta á viðtalið við Einar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Viðtalið byrjar þegar 26 mínútur og 24 sekúndur eru liðnar af upptökunni.