Telur Suðurnesjabæ eiga að vera sjálfstætt sveitarfélag
„Mér finnst bæði kurteisi og skylda að hitta Vogamenn og heyra þeirra sjónarmið í málinu,“ segir Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, í samtali við Víkurfréttir en bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ fengu erindi frá Sveitarfélaginu Vogum og það verður tekið fyrir með formlegum hætti í vikunni.
Hvert er þitt viðhorf til frekari sameiningar á Suðurnesjum?
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að Vogarnir myndu sameinast Reykjanesbæ eða Hafnarfirði og þá er ég bara að hugsa út frá landfræðilegu tilliti. Mitt viðhorf gagnvart frekari sameiningu, tel ég það heppilegt að vera með tvö til þrjú sterk sveitarfélög á Suðurnesjum. Rökin sem ég færi fyrir því eru þau að sveitarstjórnirnar og stjórnsýslan séu nær íbúunum í byggðarkjörnunum sjálfum og ná því að skynja þarfir og þjónustu við íbúana mun betur. Mikilvægt er þó að kynna sér málin frá öllum hliðum, kanna efnahagsstöðu sveitarfélaganna og skuldastöðu. Ábyrgur fjármálarekstur er grunnurinn að sjálfstæði hvers sveitarfélags.“
Sérðu fyrir þér að Suðurnesjabær fari í viðræður við Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Voga um sameiningu?
„Við tökum spjallið við Vogana. Hins vegar tel ég það fremur ólíklegt, ef ég á að vera hreinskilinn, að Suðurnesjabær fari í sameiningarviðræður. Við erum nýbúnir að sameina hér Garð og Sandgerði í eitt sveitarfélag, Suðurnesjabæ. Við erum ennþá að ná utan um það og slípa okkur saman sem eitt samfélag. Það gengur ótrúlega vel og ég tel að sú sameining hafi tekist vel.
Hver er tilfinning þín fyrir viðhorfi íbúa í Suðurnesjabæ til frekari sameiningar?
„Viðbrögðin hafa verið mikil eftir að fréttir fóru að berast af erindi Voga. Skilaboð og símtöl frá íbúum fjölmörg. Ég skynja litla stemmningu fyrir þessu hjá íbúum í Suðurnesjabæ, allavega hjá þeim sem hafa sett sig í samband við mig. En við sjáum til hvað setur, það er engin skuldbinding fólgin í því að fá sér kaffi og kleinu. Afstaða mín í dag er sú að ég tel að Suðurnesjabær eigi að vera sjálfstætt sveitarfélag.“