Telur sameiningu við Garð og Sandgerði tímaspursmál
„Ég held að þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvenær,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, aðspurður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Sérstaklega hvað varðar sameiningu Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis. Viðræður um sameiningu Garðs og Sandgerðis eru hafnar en forsvarsmenn sveitarfélaganna ekki hafa sýnt áhuga á að hefja viðræður við Reykjanesbæ,“ segir hann.
Kjartan Már telur fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar líklegustu ástæðuna fyrir því að Reykjanesbær er ekki með í þeim viðræðum en að þær geti eflaust verið fleiri. „Fólk hefur tilfinningar til síns uppruna. Við þekkjum það á milli hverfa í Reykjanesbæ. Þó að sameining hafi átt sér stað fyrir 22 árum síðan þá eru ennþá til heitir Keflvíkingar og sömuleiðis heitir Njarðvíkingar og örugglega heitir Hafnabúar líka. Á sínum tíma voru einhverjir sem töldu sameiningu í Reykjanesbæ rangt skref.“ Þá bendir Kjartan á að það geti tekið þrjár til fjórar kynslóðir fyrir sameiningu sveitarfélaga að ganga í gegn.
Á Norðurlöndunum hefur komið upp að ríkisvaldið hafi þvingað sveitarfélög til sameiningar með lagasetningu. Kjartan segir að ekki hafi verið áhugi, vilji né þor til slíkra aðgerða hér á landi. „Ég tel það ekki góða leið heldur á að leyfa sveitarfélögum að ná eigin sátt um þessi mál og það tekur tíma.“ Þá segir hann umræðuna sem nú sé í gangi gott skref.
Lengri útgáfu af viðtalinu við Kjartan Má, sem er jafnframt sjónvarpsviðtal, má sjá hér að neðan.