Telja það sanngjarna kröfu að nýta tekjur á svæðinu
- Rætt um sölu eigna á Ásbrú á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ lögðu fram bókun á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag þess efnis að meirihluti tekna af sölu eigna á Ásbrú yrði nýttur til uppbyggingar þjónustu á svæðinu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur óskað eftir afstöðu Reykjanesbæjar til sölu á eignum á Ásbrúarsvæðinu. Á fundinum tóku bæjarfulltrúar annarra flokka undir með Sjálfstæðismönnum.
Í máli Guðbrands Einarssonar, forseta bæjarstjórnar, kom fram að uppbygging á Ásbrú hefði haft áhrif á uppbyggingu í öðrum hverfum Reykjanesbæjar. „Mér finnst það sanngjörn krafa að krefja ríkið um að þessir fjármunir verðir nýttir hér,“ sagði hann. Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar sagði það fagnaðarefni að eignirnar væru að seljast. Hann sagði Reykjanesbæ hafa óskað eftir aukinni aðkomu að stjórn Kadeco og minnti á að sveitarfélagið ætti ekki sæti í stjórn þróunarfélagsins. „Önnur sveitarfélög hafa óskað eftir aðkomu að þessum fjármunum. Það hefur komið opinberlega fram, meðal annars hjá bæjarstjórn Sandgerðisbæjar,“ sagði hann. Í máli Gunnars Þórarinssonar, bæjarfulltrúa Frjáls afls, kom fram að skynsamlegt verði að tekjur af sölu eigna á Ásbrú myndu renna til uppbyggingar á Ásbrú. Einnig væri í önnur horn að líta, til að mynda þyrfti að lagfæra miðbæinn og ljúka við hálfbyggð hverfi.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, benti á að þegar Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, var stofnað hafi staðið til að allir fjármunir sem fengjust af sölu eigna á svæðinu yrði nýttir þar. „Því miður voru gerðar breytingar á því árið 2008 þegar tekin var ákvörðun um að þessir fjármunir færu allir í ríkissjóð og félagð yrði á fjárlögum.“ Þá sagði Böðvar það mjög eðlilegt að rifja þær fyrirætlanir upp og nýta fjármunina til uppbygginar i sveitarfélaginu.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, átti fund með fjármálaráðherra og fulltrúum fjármálaráðuneytis á dögunum. Í máli bæjarstjórans á bæjarstjórnarfundi síðasta þriðjudag kom fram að ráðherra hefði óskað eftir fundinum til að heyra sjónarmið bæjaryfirvalda varðandi sölu á eignum á Ásbrú. Á fundinum var ekki rætt um andvirði þeirra eigna sem hafa verið seldar né þeirra sem enn á eftir að selja. „Við ræddum ekki saman á þeim nótum, heldur vildi ráðherra fá það hreint og klárt frá okkur hvort við hefðum eitthvað á móti því að þetta yrði selt í einu lagi,“ sagði bæjarstjórinn.
Nú þegar hafa eignir á Ábrú fyrir um 11,5 milljarða verið seldar eða um 60 prósent húsnæðis þar. Fasteignamat þeirra eigna sem enn á eftir að selja er um 7,5 milljarðar.
Hér má hlýða á upptöku af fundi bæjarstjórnar í Reykjanesbæ síðasta þriðjudag.