Telja enga útgönguleið úr stóriðjusamningum
- Umhverfisráðherra segir lög alltaf til endurskoðunar
Engin leið er í sjónmáli til að rifta samningum við Thorsil og Norðurál um rekstur stóriðjufyrirtækja í Helguvík. Þetta kom fram í máli Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra og Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, á opnum fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í gær. Á fundinum var rætt um mengun og rekstrarörðugleika kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Friðjón var á fundinum spurður út í frekari stóriðjuuppbyggingu í Helguvík. Hann nefndi í svari sínu að ríkið væri stærsti aðilinn að gerð ívilnunarsamninga við stóriðjufyrirtæki. „Álver í Helguvík er gott dæmi. Það er engin leið fyrir sveitarfélagið ef það vill ekki að það fari í gang. Tómt húsið getur staðið þarna í áratugi. Útgönguleiðir okkar eru engar nema með eftirlitsstofnunum. Kannski þarf þingið að koma sterkar að því að hjálpa okkur í þessu,“ sagði Friðjón. Hann benti á að skipulag fyrir Helguvík hefði verið í gildi síðan árið 1994 og að síðan 1995 hafi Reykjanesbær verið í samstarfi við Landsvirkjun, Hitaveituna og iðnaðarráðuneyti um að vekja áhuga erlendra fyrirtækja á svæðinu. Uppbyggingin núna sé því ekki byggð á nýlegri ákvörðun.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók þá ákvörðun á fundi sínum á þriðjudag að í nýju aðalskipulagi yrði ekki leyfð meiri mengandi stóriðjustarfsemi. Ákvörðunin nær þó ekki til samninga um kísilverksmiðju Thorsil og álver Norðuráls sem þegar hafa verið gerðir, heldur til framtíðar.
„Við erum bundin af samningum sem fyrri stjórnvöld gerðu. Þeir eru mér þvert um geð en ég verð að virða stjórnskipan landsins,“ sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra á fundinum. Hún benti á að lögin væru þó alltaf til endurskoðunar.
Frá fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í gær. Frá vinstri Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og Þórólfur Júlían Dagsson, fulltrúi íbúa á fundinum. VF-mynd/dagnyhulda