Telja ástandið slæmt vegna langra biðlista
- Eldri borgarar þrýsta á um byggingu hjúkrunarheimilis
Samþykkt var á aðalfundi Félags eldri borgara á Suðurnesjum á dögunum að skora á sveitarstjórnir á Suðurnesjum að ná samstöðu um að knýja á við ríkisvaldið að nú þegar verði hafinn undirbúningur að byggingu hjúkrunarheimilis í nágrenni Nesvalla.
Í fundargerð aðalfundarins segir að bygging nýs hjúkrunarheimilis á Suðurnesjum sé ekki á næstu fimm ára áætlun sem gefin var út á síðasta ári. „Það hljóta allir að sjá að það getur ekki gengið miðað við þann biðlista sem er hér. Ástandið er nú þegar slæmt en lengsta biðin eftir úrlausn er á Suðurnesjum og verður orðið mjög alvarlegt árið 2020 en þá má reikna með að biðlisti verði um 100,“ segir í fundargerðinni.
Þá skoruðu fundarmenn aðalfundarins á nýjan heilbrigðisráðherra að taka stefnuna til endurskoðunar þannig að tryggt verði að hafinn verði undirbúningur hið fyrsta að byggingu nýs hjúkrunarheimilis, þannig að hægt verði að taka það í notkun árið 2019.