Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Telja að leita þurfi víðar að upptökum mengunar
Þriðjudagur 28. mars 2017 kl. 14:46

Telja að leita þurfi víðar að upptökum mengunar

- Segja að mengun í desember kunni að skýrast af flugeldum

Fulltrúar kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík telja að leita þurfi uppruna mengunar sem mælst hefur á Suðurnesjum víðar en hjá þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi fjölmiðlum í gær. Í tilkynningunni segir að arsenmengun hafi mælst 1ng/m3 á fyrri hluta síðasta árs og fram í september. Hún hafi svo hækkað í október áður en verksmiðjan tók til starfa upp í um 6 ng/m3 og haldist í kringum það gildi í þeim sýnum sem skoðuð voru síðustu mánuði ársins. Sýni sem tekið var í lok desember var með hæst gildi 6,9 ng/m3. Í tilkynningunni segir að það kunni að skýrast af notkun skotelda um áramót.

Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri Umhverfisstofnunar, sagði í viðtali við RÚV í gær að fullvíst væri að mengunin komi frá verksmiðjunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Yfirlýsing United Silicon er eftirfarandi:

Sérfræðingar á vegum United Silicon kanna nú mæligögn sem verið hafa til umræðu síðustu daga um niðurstöðu á greiningu á PAH og fleiri efnum, (þ.á.m. þungmálmum), í svifryki frá mælistöð USi við Hólmbergsbraut. Þessar mælingar hafa meðal annars verið túlkaðar á þann veg í fréttum Ríkisútvarpsins að arsenmengun frá verksmiðju USi sé liðlega 20 sinnum meiri en heimild sé fyrir í starfsleyfi verksmiðjunnar.
 

Ef gögnin eru skoðuð kemur í ljós að arsenmengun mældist um 1ng/m3 fyrri hluta árs og fram í september en í október, áður en verksmiðja USi tekur til starfa um miðjan nóvember,  hækkaði þetta gildi í loftsýnum upp í um 6ng/m3 og hélst í kringum það gildi í þeim sýnum sem skoðuð voru síðustu mánuði ársins. Sýni sem tekið var í lok desember var með hæst gildi eða 6,9 ng/m3 og kann það að skýrast af notkun skotelda um áramót. Þess ber að geta að mælistöðin við Hólmgeirsbraut er staðsett sunnan við verksmiðju USi. Frá október og fram í lok desember var sunnanátt ríkjandi á svæðinu og því stóðu vindar í átt að verksmiðjunni en ekki frá henni. Þetta bendir til þess að leita þurfi að upptökum mengunarinnar víðar en  hjá verksmiðju United Silicon í Helguvík.
 

Sýnatakan fer þannig fram að safnað er svifryki í mælistöð í sex daga í senn og þá er skipt um síur í mælitækjum.  Frá mars 2016 til loka árs voru að jafnaði send út til rannsókna 4-5 sýni fyrir hvern mánuð.
 

Af hálfu verksmiðjunnar hefur að undanförnu verið lögð áhersla á lagfæra og endurbæta búnað verksmiðjunnar til að tryggja að hvorki starfsmönnum hennar né íbúum í nágrenninu standi heilsufarsleg ógn af rekstri hennar.  Stjórnendur United Silicon hvetja til þess að menn gefi sér tíma til að leita skýringa á uppruna þeirrar mengunar sem mælst hefur á Suðurnesjum áður en hrapað er að ályktunum.