Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Teknir með þýfi í innkaupagrind úr Bónus
Föstudagur 3. júlí 2020 kl. 09:37

Teknir með þýfi í innkaupagrind úr Bónus

Umferðaróhapp varð í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum fyrr í vikunni þegar maður hjólaði yfir hringtorg og hafnaði á bifreið. Hann kvartaði undan eymslum eftir atburðinn og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Lögreglu grunaði að hann væri undir áhrifum fíkniefna og studdu niðurstöður sýnatöku þann grun því þær staðfestu neyslu hans á kannabis.
Þá óku tveir ökumenn á ljósastaur og umferðarljós. Annar þeirra hafði sofnað undir stýri og því fór sem fór.
Lögregla hafði einnig afskipti af tveimur drengjum sem voru saman á einni rafskútu ætlaðri einum. Hvorugur var með öryggishjálm. Lögregla hafði samband við forráðamenn þeirra og tilkynnti málið til barnaverndar.

Tveir ofurölvi menn sem voru á vappinu með innkaupakerru úr Bónus fyrr í vikunni í Keflavík vöktu athygli vegfaranda sem gerði lögreglunni á Suðurnesjum viðvart. Í kerrunni reyndist vera mikið magn þýfis úr fjórum verslunum sem annar þeirra hafði tekið án þess að greiða fyrir.  Um var að ræða þráðlausan hátalara, ilmvötn og ýmis konar matvöru úr Bónus að heildarverðmæti tæplega 50 þúsund krónur.
Annar mannanna viðurkenndi þjófnaðinn við skýrslutöku hjá lögreglu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024