Tekjur umfram gjöld áætlaðar 8,4 milljónir króna
– Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga samþykkt
„Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2015 - 2018 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á öllu áætlunartímabilinu, jafnt í A hluta sem og í A og B hluta samtals. Sveitarfélagið mun samkvæmt áætluninni standast ákvæði fjármálareglna sveitarstjórnarlaga um tekjujöfnuð og skuldahlutfall á áætlunartímabilinu.
Á árinu 2015 eru heildartekjur samstæðunnar áætlaðar 868 miljónir króna. Skatttekjur eru áætlaðar 485 miljónir króna, framlög Jöfnunarsjóðs 289 miljónir króna og aðrar tekjur 94 miljónir króna. Gjöld án fjármagnsliða eru áætluð 821 miljónir króna, þar af eru laun og launatengd gjöld 487 miljónir króna, annar rekstrarkostnaður 293 miljónir króna og afskriftir 42 miljónir króna. Fjármagnsgjöld eru áætluð 47 miljónir króna. Tekjur umfram gjöld eru því áætluð 8,4 milljónir króna. Framlegð rekstursins er áætluð liðlega 10% á árinu 2015, veltufé frá rekstri er áætlað 8,5%.
Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2015 eru áætlaðar 785 miljónir króna. Langtímaskuldir eru áætlaðar 685 miljónir króna, lífeyrisskuldbindingar 104 miljónir króna og skammtímaskuldir 95 miljónir króna. Útreiknað skuldahlutfall í árslok 2015 er áætlað verða um 90%, en í lok áætlunartímabilsins verði það komið niður fyrir 75%.
Áætlun um sjóðstreymi 2015 gerir ráð fyrir að fjármunamyndun rekstursins (veltufé frá rekstri) verði 74 miljónir króna. Afborganir lána og skuldbindinga eru áætlaðar 37,4 miljónir króna en 40 miljónum króna verði varið til fjárfestinga. Fjárfestingar verða fjármagnaðar með handbæru fé og því ekki gert ráð fyrir nýjum lántökum.“ Þetta segir í bókun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga vegna síðari umræðu um fjárhagsáætlun Voga fyrir árin 2015 til 2018. Bókunin var samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Fulltrúar E-listans lögðu fram eftirfarandi bókun við umræðuna:
„Nú liggur hér fyrir fjárhagsáætlun næsta árs og reyndar næstu þriggja ára. Áætlun þessi hefur verið unnin í nánu samstarfi við bæjarstjóra, fulltrúa minnihlutans og forstöðumenn sveitarfélagsins. Fyrir þá samvinnu færum við þeim okkar bestu þakkir. Eins og sjá má er rekstur sveitarfélagsins í járnum og lítið má út af bregða. Við væntum þess og vonum að starfsmenn sveitarfélagsins allir leggist á eitt til að rekstur sveitarfélagsins fái að blómstra okkur öllum til hagsbóta.“
Fulltrúar D-listans leggja fram svohljóðandi bókun:
„D listinn harmar að niðurgreiðslur af hálfu sveitarfélagsins í rútuferðir skuli vera lagðar af. D listinn er mótfallinn þeirri skattahækkun sem meirihlutinn styður í fjárhagsáætlun.“
Fulltrúar E-listans leggja fram eftirfarandi bókun:
„Í þá tíð er fulltrúi D lista sat í bæjarstjórn fyrir hönd H lista var ákveðið að niðurgreiða almenningssamgöngur um allt að 500 þúsund krónur. Bein niðurgreiðsla vegna farmiðakaupa á yfirstandandi ári er um 3.800 þúsund krónur. Kostnaður í heild við þessa þjónustu á yfirstandandi ári er um 7.400 þúsund krónur. Áfram verður um að ræða niðurgreiðslu sem kemur gegnum samstarf okkar í Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fulltrúar E listans kannast ekki við að verið sé að hækka skatta í þessari fjárhagsáætlun.“
Ingþór Guðmundsson leggur fram eftirfarandi tillögu:
„Lagt er til að lögbundin fjárframlög til stjórnmálasamtaka árið 2015 verði sem nemur 1 kr. á íbúa.“ Samþykkt með fjórum atkvæðum. Þrír sitja hjá.