Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mánudagur 22. maí 2000 kl. 16:28

Tekjur Sandgerðisbæjar 280 milljónir árið 1999 - endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Samkvæmt ársreikningum Sandgerðisbæjar árið 1999 voru heildartekjur 280 millj. kr. og rekstrargjöld 246 millj.kr. Afborganir langtímaskulda voru 29 millj.kr. og vextir af langtímaskuldum 13 millj.kr. Gjaldfærð fjárfesting var 28 millj.kr. og eignafærð fjárfesting 9 millj.kr. Ný langtímalán kostuðu bæinn 39 millj.kr.Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, sagði að launaþáttur rekstrarins hefði aukist á milli ára og hið sama mætti segja um viðhald fasteigna. „Við ætlum okkur að ná meira jafnvægi í reksturinn og þess vegna var ákveðið að skoða rekstraráætlun fyrir árið 2000 að nýju. Það er nú samt ekki annað hægt en vera ánægður með vaxtaþátt rekstrarins, sem hefur stórlagast. Afborganir af lánum eru í góðu lagi og fjárfestingar sömuleiðis“, sagði Sigurður Valur um rekstrarstöðu bæjarins. Hann tók þó sérstaklega fram að það væri ekkert launungamál að um 45 % af öllum tekjum bæjarins rynnu til skólamála, sem væri of mikið miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélaga. „Það er alveg ljóst að við verðum að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Bæjar- og sveitarstjórar komu saman um áramótin til að ræða þessa tekjuskiptingu og settar voru fram ýmsar hugmyndir í því sambandi. Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga skoðaði málið og skipaði vinnuhóp en við erum nú að bíða eftir niðurstöðum frá þeim“, sagði Sigurður Valur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024