Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekjuaukning um 25% hjá Bláa lóninu
Mánudagur 21. mars 2005 kl. 12:15

Tekjuaukning um 25% hjá Bláa lóninu

Á aðalfundi Bláa Lónsins hf sem haldinn var nýlega kom fram, að rekstur félagsins gekk vel á síðasta ári.

Tekjur Bláa Lónsins hf voru 825 milljónir árið 2004 sem er 25% vöxtur frá fyrra ári.

Met var enn og aftur sett hvað varðar fjölda gesta heilsulindar en á síðasta ári heimsóttu 354 þúsund gestir Bláa Lónið - heilsulind.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði s.k. EBITDA batnaði um 46% milli ára  og var  128 milljónir króna. Veltufé frá rekstri var 92,6 milljónir króna, sem er rúmlega 60% hækkun frá fyrra ári. Hagnaður ársins var 86 milljóna króna eftir skatta.

Rekstraráætlun ársins 2005 gerir ráð fyrir að gestir heilsulindar verði 370.000, rekstrartekjur aukist um 20% frá fyrra ári og að velta félagsins nái einum milljarði króna.

Töluverðar breytingar urðu á hluthafahópi Bláa Lónsins hf á á síðasta ári en Hitaveita Suðurnesja hf er enn sem fyrr kjölfestufjárfestir í félaginu með rúmlega þriðjungs eignarhlut.

Á aðalfundinum voru Eðvarð Júlíusson, Júlíus J. Jónsson og Albert Albertsson endurkjörnir í stjórn en nýir stjórnarmenn eru Helgi Magnússon og Úlfar Steindórsson. Eðvarð var kjörinn formaður á fyrsta fundi nýrrar stjórnar, en hann hefur verið stjórnarformaður Bláa Lónsins hf frá stofnun félagsins árið 1992.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024