Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekist á um samning við Hrafnistu og niðurskurð hjá HSS
Miðvikudagur 13. nóvember 2013 kl. 12:34

Tekist á um samning við Hrafnistu og niðurskurð hjá HSS

Nokkuð fjörugar umræður urðu á aukafundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gærkvöldi þar sem tekinn var til afgreiðslu samstarfssamningur við Hrafnistu um hjúkrunarrými í Reykjanesbæ sem samþykktur hafði verið í bæjarráði Reykjanesbæjar sl. fimmtudag. Tillaga bæjarfulltrúa Samfylkingar var sú að bæjarstjórn Reykjanesbæjar fresti afgreiðslu málsins þar til kostir sem í boði eru, m.a. möguleg aðkoma Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) að rekstrinum, hafa verið metnir upp á nýtt og borgarafundur verið haldinn þar sem íbúum Reykjanesbæjar verði kynntir valkostir. Á fundinum kom fram að niðurskurður í fjárlögum til HSS og tekjumissir við það að missa 18 hjúkrunarrými sem stofnunin hefur séð um tímabundið á meðan byggingu Nesvalla hefur staðið er um 200 milljónir króna.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, þau Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson, greiddu atkvæði með því að fresta undirritun samningsins við Hrafnistu, skoða kosti betur og boða til íbúafundar. Einar Magnússon bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks greiddi þessari tillögu einnig atkvæði sitt. Kristinn Jakobsson, Framsóknarflokki, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en sex bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins felldu tillöguna með atkvæðum sínum.

Eftir að ljóst var að tillagan um frestun hafi verið felld bókuðu fulltrúar Samfylkingar á eftirfarandi hátt:

„Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar harma ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að neita að fresta ákvörðunum um rekstraraðila að Hjúkrunarheimilinu að Nesvöllum.
Mikil óvissa ríkir nú um framtíð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, spáð er miklum samdrætti í tekjum og uppsagnir fyrirsjáanlegar á næstu mánuðum.

Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar verða að staldra við og leita svara hjá heilbrigðisráðherra um framtíð HSS. Meðan þessi óvissa ríkir getum við bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ekki falið okkur á bak við að það er á ábyrgð ríkisins að bera ábyrgð á rekstri HSS.
Við þurfum að bera ábyrgð á samfélaginu okkur og því ber að staldra við í stað þess að æða áfram og láta starfsfólk HSS bíða í óvissu sem og samfélagið allt“.

Ítarlega er fjallað um bæjarstjórnarfundinn í Víkurfréttum á morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024