Tekist á um ráðningu upplýsinga- og þróunarfulltrúa
Bæjarráð Grindavíkur hefur staðfest ráðningu Þorsteins Gunnarssonar í starf upplýsinga- og þróunarfulltrúa Grindavíkurbæjar. Þorsteinn, sem er Grindvíkingur, hefur starfað sem íþróttafréttamaður hjá Stöð 2 undanfarin níu ár og verið formaður Samtaka íþróttafréttamanna.
Um nýtt starf er að ræða hjá bænum en upplýsinga- og þróunarfulltrúinn hefur umsjón með innra og ytra kynningar- og upplýsingastarfi, markaðssetningu og þróun verklags í samvinnu við sviðsstjóra, að því er segir á vef Grindavíkurbæjar.
Alls sótti 31 umsækjandi um starfið og sá fyrirtækið ParX um umsóknarferlið.
Tekist var á um ráðninguna á síðasta bæjarráðssfundi í Grindavík þar sem bókanir gengu á víxl milli meiri- og minnihlutans. Minnihlutinn taldi ráðningu þessa algjörlega ótímabæra og talar í bókun um pólitísk hrossakaup.
Meirihlutinn segir Þorstein hafa verið metinn til starfans á eigin verðleikum að teknu tilliti til allra þátta í mati ParX á umsækjendum. Aðdróttanir um annað séu fulltrúa minnihlutans til minnkunar.
Fundagerð bæjarráðs og bókanir má sjá hér