Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekist á um málefni fatlaðra
Sunnudagur 15. apríl 2007 kl. 14:57

Tekist á um málefni fatlaðra

S-listi Samfylkingar í bæjarstjórn Sandgerðis gagnrýnir meirihluta bæjarstjórnar fyrir að eiga ekki samráð við Svæðiðskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi en meirihlutinn lagði til á síðasta bæjarstjórnarfundi að samþykkt yrði tillaga bæjarráðs um að láta fara fram hönnun á húsnæði fyrir fatlaða. 
S-listinn segir slíkt samráð lykilatriði í þróun hugmynda um búsetuþjónustu við fatlað fólk í Sandgerði enda megi telja líklegt að Svæðisskrifstofan komi til með að sjá um rekstur á umræddu heimili.

Þetta kemur fram í bókun S-lista sem bæjarfulltrúar hans lögðu fram á síðasta bæjastórnarfundi. S-listinn telur það grundvallaratriði að formlegar viðræður Sandgerðisbæjar og Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi fari fram og raunveruleg þörf verði metin út frá staðreyndum, en ekki tilfinningum.  Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar geti ekki tekið ákvörðun um fjárhagslegar skuldbindingar fyrr en þarfagreining liggi fyrir sem og viljayfirlýsing um samstarf ríkis og sveitarfélags. 

Í bókun sem meirihlutinn lagði fram er því haldið fram að bókun minnihlutans beri vott um litla þekkingu á því starfi sem fram hefi farið í umræddu máli. K-listi og D-listi hafi ákveðið strax í meirihlutasamstarfssamningi sínum að leggja þunga áherslu á búsetuúrræði fyrir fatlaða einstaklinga.
Segir í bókuninni að starfsfólk Sandgerðisbæjar og nefndarfólk ásamt bæjarstjóra hafi unnið markvisst að því að móta tillögur og kanna öll úrræði til að ná fram umræddum markmiðum. Margir hafi komið að þeirri vinnu, leitað hafi verið til foreldra fatlaðra einstaklinga, Þroskahjálpar á Suðurnesjum og haft hafi verið samband við fulltrúa frá Svæðisskrifstofu ásamt ráðherra félagsmála, sem voru afhentar formlegar tillögur nýverið.

"Meirihluti bæjarstjórnar þ.e. K-listi og D-listi, harmar framkomna bókun frá S-lista sem getur skaðað framgang málsins og e.t.v. valdið töfum á afgreiðslu þess og framgangi. Umrædd bókun er því ekki í takt við framgang málsins eða vilja til að ljúka góðu verki, " segir í bókun meirihlutans.

Sjá nánar í fundargerð bæjarstjórnar á vef Sandgerðisbæjar www.sandgerdi.is

Mynd: Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði,  afhenti Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaraðherr,a nýverið tillögur að byggingu húsnæðis fyrir sambýli og þjónustuíbúðir fatlaðra. Með þeim á myndnni eru Helga Sigrún Harðardóttir, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi, ásamt Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra.

VF-mynd: elg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024