Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Tekist á um Helguvík
Þriðjudagur 24. mars 2009 kl. 12:24

Tekist á um Helguvík

-Vinstri grænir á móti en Samfylking með

Efnahags- og skattanefnd Alþingis afgreiddi í dag út úr nefndinni umsögn um fjárfestingasamninginn um álver í Helguvík. Sú umsögn er talin liggja afgreiðslu iðnaðarnefndar síðar í vikunni til grundvallar. Efnahags- og skattanefnd mælir eindregið með því í áliti sínu að af framkvæmdunum verði og að fjárfestingasamningurinn við Norðurál verði samþykktur af Alþingi.
 
Það sem var sérstætt við afgreiðslu nefndarinnar var að stjórnarflokkarnir stóðu ekki saman.  Samfylkingin er með fjárfestingarsamningnum og álverinu í Helguvík en Vinstri grænir á móti og skiluðu þeir séráliti í málinu þar sem andstaða þeirra við álver í Helguvík er ítrekuð.
 
Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er formaður Efnahags- og skattanefndar. Hann segir að málið sé einkar mikilvægt og hann ásamt Össuri iðnaðarráðherra hafi beitt sér mjög fyrir því að nefndin mælti eindregið með álverinu í umsögn sinni. Því hafi það verið jákvætt að samstaða myndaðist með Frjálslyndum, Sjálfstæðisflokki og Framsókn við að ná því út.
 
Hver var afastaða þín og nefndarinnar til álversins í Helguvík?
 
„Meirihluti nefndarinnar styður málið. Nefndin ræddi sérstaklega mikilvægi framkvæmdarinnar fyrir atvinnustig á Suðurnesjum og suðvesturhorninu og þær jákvæðu breytingar sem álversframkvæmdir í Helguvík hefðu á það. Þá kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu að verulega jákvæð áhrif hlytust af byggingu álversins fyrir tekjustofna sveitarfélaga, húsnæðismarkaðinn og atvinnumarkaðinn almennt með margvíslegum jákvæðum hliðaráhrifum.

Nú þegar efnahagsáföllin hafa haft mikil og neikvæð áhrif á mannvirkja- og þjónustugeira má gera ráð fyrir að áhrifin af álverinu á slíka starfsemi yrðu almennt jákvæð.

Almennt má reikna með að áhrif álversframkvæmda í Helguvík verði afar jákvæð á efnahagslífið og sérstaklega atvinnu-og framleiðslustigið í landinu nú þegar mikill slaki hefur myndast í hagkerfinu og samdráttur er fyrirsjáanlegur. Því styðjum við málið eindregið og ég er bjartsýnn á að Norðuráli takist að ljúka við byggungu álversins og að framkvæmdir verið komnar á hástig síðar á árinu.
Þannig náum við að skapa þúsundir nýrra starfa og ekki veitir af,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar um afgreiðslu málsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Mynd frá fyrstu skóflustungunum að álverinu í Helguvík á síðasta sumri.