Tekist á um 3ja ára áætlun
Þriggja ára fjárhagsáætlun Garðs hefur verið samþykkt en nokkuð hefur verið tekist á um hana í bæjarstjórn. F-listinn í minnihlutanum hefur ýmsar athugasemdir gert við áætlunina, eins og gefur að skilja, og lýsir m.a. yfir óánægju með forgangsröð verkefna.
Áætlunin kom til seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Athugasemdir F-listans felast m.a. í því að ekki eigi að taka á aðstöðuleysi forstöðumanns Byggðasafnsins fyrr en á næsta ári. Einnig að ekkert eigi að gera á svæðinu við Garðskaga fyrr en árið 2010 og gagnrýnir minnihlutinn þann seinagang sem verið hefur á hönnun svæðisins, eins og kemur fram í bókun
Þá gagnrýnir F-listinn að framkvæmdir við samkomuhúsið séu ekki á stefnuskrá N-listans. Einnig er háum álögum á bæjarbúa mótmælt þar sem ekki sé gert ráð fyrir lækkun á fasteignagjöldum eins og nágrannasveitarfélögin hafi nú þegar gert.
Í bókun N-listans segir að áætlunin byggi Framtíðasýn sveitarfélagsins sem hafi verið leiðarljós N-listans við forgangsröðun verkefna. Í greinarferð bæjarstjóra, sem lögð hafi verið fram við fyrri umræðu, komi fram áætlanir um helstu framkvæmdir og fjárfestingar næstu þrjú árin. Áætlunin sé framsækin og metnaðarfull. Í fjárhagsáætlunargerð hvers árs sé það hlutfall sem miðað sé við, við innheimtu skatttekna bæjarins, að sjálfsögðu endurskoðað í ljósi aðstæðna.
„Ef fasteignamat í Garði heldur áfram að hækka umfram verðbólgu verða fasteignagjöldin endurskoðuð. Vert er að benda á að N-listinn lækkaði fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 7% fyrir ári síðan,“ segir í bókun N-listans.
Fjárhagsáætlunin var samþykkt með 4 atkvæðum N-listans. Fulltrúar F-lista sátu hjá.