Tekinn með kókaínfjall í flugstöðinni frá Amsterdam
– Brasilíumaður tekinn með nær tvö kíló af kókaíni
Tæplega fertugur brasilískur karlmaður sætir nú gæsluvarðhaldi eftir að hann hafði gert tilraun til að smygla nær tveimur kílóum af kókaíni til landsins.
Maðurinn var að koma frá Amsterdam í lok síðasta mánaðar þegar tollverðir stöðvuðu hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að hann væri með fíkniefni meðferðis. Efnin, 1.8 kíló, fundust svo vandlega falin í ferðatösku hans. Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn og fer með rannsókn málsins sem enn stendur yfir.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því að hann kom til landsins. Varðhaldsvistin var síðast framlengd 17. þessa mánaðar og rennur hún út 15. október. Ekki er vitað til þess að maðurinn hafi komið áður hingað til lands og er hann talinn vera burðardýr.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.