Tekinn með kannabissælgæti í tollinum
Nokkur fíkniefnamál hafa komið á borð lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Frá íbúð í umdæminu barst mikil kannabislykt. Við leit, að fenginni heimild fundust kannabisefni og hvítt efni.
Við öryggisleit á öðrum einstaklingi, sem handtekinn var, fannst hvítt meint fíkniefni í poka.
Þá var lögreglu gert viðvart um erlendan ferðamann sem stöðvaður hafði verið í tolli með kannabissælgæti. Um var að ræða pakka með sykruðu sælgæti. Manninum var gert að greiða rúmlega 60 þúsund krónur í sekt og var hann frjáls ferða sinna að því loknu.