Tekinn með 50 fölsuð íslensk strætókort
Lögreglumenn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum handtóku í fyrrinótt karlmann sem var að koma með flugi frá Varsjá og færðu hann á lögreglustöð. Í fórum sínum hafði hann 50 íslensk níu mánaða strætókort að verðmæti ríflega þrem milljónum króna. Tollverðir höfðu stöðvað manninn við komuna hingað. Leikur grunur á að kortin hafi verið fölsuð erlendis og ætluð til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Lögregla haldlagði þau, svo og umslög sem þau fundust í og farsíma umrædds aðila.