Tekinn á 183 km hraða á Reykjanesbrautinni
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í dag för ökuþórs á bifhjóli eftir að hafa mælt hann á 183 km hraða á Reykjanesbraut. Var viðkomandi færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum. Hann má jafnframt búast við hárri fjársekt vegna háttarlags síns.
Einn ökumaður til var kærður fyrir hraðakstur í dag en sá var á 115 km hraða á Reykjanesbraut þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km. Þá var annar stöðvaður fyrir að aka án ökuréttinda.
Vegna tíðra afskipta lögreglu af ökumönnum er aka utan vegar á Reykjanesi var haldið úti sérstöku eftirliti lögreglu með tilliti til þess. Þó kom ekki til neinna afskipta lögreglu vegna þess í dag.