Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tek mark á stóru könnuninni
Laugardagur 23. júlí 2016 kl. 05:00

Tek mark á stóru könnuninni

Ragnheiður Elín leggur verk sín í dóm kjósenda - Reykjanesbraut fari á samgönguáætlun

Í nýlegri könnun sem stuðningsmenn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, létu vinna sögðust 67,5% líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Elliði leiddi listann í stað Ragnheiðar Elínar Árnadóttur oddvita flokksins. Ragnheiður segist ekki missa svefn yfir könnuninni en hún hyggst áfram bjóða sig fram í fyrsta sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi.

„Er maður ekki alltaf í kosningabaráttu,“ segir ráðherra létt í bragði þar sem blaðamaður nær af henni tali á ferðinni um suðurlandið. Þar er hún að tala við sveitastjórnarfólk og taka stöðuna á ferðaþjónustunni. „Auðvitað berast kosningar til tals, annað væri óeðlilegt,“ bætir Ragnheiður við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég ætla að fara fram aftur og þetta er sú aðferð sem við höfum til að velja okkar forystu með því að hleypa almennum flokksmönnum að. Ég er ákveðin í bjóða mig fram aftur. Ég er keik og legg mín verk í dóm kjósenda, hvort sem er í prófkjöri eða þegar við Sjálfstæðismenn göngum saman til kosninga. Þeir málaflokkar sem ég hef borið ábyrgð á, við höfum náð miklum árangri þar,“ segir iðnaðar- og viðskiptaráðherrann.

Þetta kveikir í mínum stuðningsmönnum

Ragnheiður segist finna fyrir miklum stuðningi og meðbyr hjá Sjálfstæðismönnum. „Ég fæ mikla hvatningu og þá sérstaklega eftir að þessi umræða hefur farið hærra. Þetta kveikir í mínum stuðningsmönnum og þeir eru allir komnir á fullt. Ég er mjög bjartsýn á þetta allt saman.“

Aðspurð um tölur úr könnun sem stuðningsmenn Elliða létu gera á dögunum þá segir ráðherra. „Veistu það að ég ætla bara að taka mark á stóru könnuninni sem prófkjörið er.“ Ragnheiður hefur sjálf aldrei látið framkvæma slíka könnun fyrir prófkjör og hyggst ekki gera það heldur núna. Henni finnst vænlegri aðferð að fara og tala við kjósendur augnliti til augnlits. „Ég gef ekki mikið fyrir þessa könnun fyrr en ég fæ að vita um aðferðafræðina. Þannig að ég missi nú engan svefn yfir þessari könnun og held mínu striki.“

Ragnheiður hefur einnig heyrt af gagnrýni þar sem hún ferðast um kjördæmið. „Þetta er ekki eintóm halelúja umræða. Það eru málaflokkar sem heyra kannski ekki beint undir mig sem ráðherra. Það eru helst innviðamál, samgöngur, heilbrigðismál, mér finnst fólk vera þeirrar skoðunar að þessi mál séu næst á dagskrá og að við þurfum að gera betur þar. Það er í takt við það sem við höfum sagt að við ætlum að gera. Nú er hugsanlega komið meira svigrúm en var í þröngri stöðu þegar við tókum við.“

Óásættanlegt að tvöföldun sé ekki á samgönguáætlun

Ragnheiður segir að fundur með innanríkisráðherra og fulltrúum frá Stopp-hópnum hafi verið ánægjulegur. Þar hafi komið skýrt fram að innanríkisráðuneytið hafi augun á þessum bolta. „Það er vilji ráðherra að þessi hluti, Fitjar-Flugstöð, fari inn á 12 ára samgönguáætlunina fram að 2022. Ég verð svo að láta þakklæti mitt í ljós til hópsins sem hefur sett málið fram á málefnalegan hátt þannig að það sé tryggt að það verði hlustað. Menn gera sér líka grein fyrir því að það er ekki bara þarna sem úrbóta er þörf. Nú er verið að koma þessu í þannig farveg að við sjáum til lands. Í millitíðinni getum við sinnt þeim úrbótum sem eru nauðsynlegar en meira hugsaðar til bráðabirgða til þess að tryggja öryggi okkar sem þurfum að ferðast þarna um að hverjum degi.“ Ragnheiður segir að langtímamarkmiðið sé að ljúka tvöföldun og eygir von um að það verk komist inn á samgönguáætlun. „Það er óásættanlegt að þetta sé ekki þar vegna mikilvægis þessarar framkvæmdar,“ segir hún að endingu.