Tap Festa gæti numið 10 milljörðum
Festa lífeyrissjóður er um 60 milljarða króna sjóður sem varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Vesturlands. Höfuðstöðvar sjóðsins eru í Reykjanesbæ. Gylfi Jónasson, forstöðumaður lífeyrissjóðsins, sagði að sjóðurinn hefði tapað fjármunum á hruni bankanna eins og aðrir lífeyrissjóðir, en vildi ekki gefa upp neina tölu í því sambandi. Sagði það ekki tímabært.
Gylfi sagði að Festa hefði átt tiltölulega lítið af hlutabréfum í stóru bönkunum. „Við höfum verið með um 8% af okkar fjárfestingum í hlutabréfum og um helmingur þess í fjármálafyrirtækjum. Þetta er mun minna hlutfall en hjá hinum stóru lífeyrissjóðunum, sem hafa verið með um 25-30% í innlendum hlutabréfum. Auðvitað höfum við borið skaða af falli bankanna eins og aðrir. Ég tel að það sé full snemmt að segja til um hve mikið hefur tapast, því enn er mikil óvissa á fjármálamarkaði. Tíminn verður að leiða það í ljós," sagði Gylfi.
Hann sagði að sjóðurinn væri alltaf að leita nýrra og öruggari leið til að fjárfesta. Nú væru það skuldabréf sveitarfélaganna sem væru fýsilegasti kosturinn. „Við höfum verið að kaupa skuldabréf hjá stóru sveitarfélögunum, m.a. hjá Reykjanesbæ. Teljum það öruggan fjárfestingakost eins og staðan er núna," sagði hann.
Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur, sagði í Kastljósviðtali Sjónvarpsins á dögunum að eignir lífeyrissjóða landsins komi til með að rýrna um 15-20% í fjármálakreppnunni. Ef þetta gengur eftir má búast við að tap Festa komi til með að nema um 10 milljörðum króna.
Festa lífeyrissjóður er með tæplega 9 þúsund greiðandi sjóðfélaga og rúmlega 4 þúsund lífeyrisþega.