Tap á rekstri Hafnasamlags Suðurnesja
Kristmundur Ásmundsson (J) gat ekki orða bundist á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sl. þriðjudag, eftir að hafa lesið yfir ársreikninga Hafnasamlags Suðurnesja. Þar kom fram að tap samlagsins nam um 77 millj. kr. á síðasta ári en Reykjanesbær ábyrgist tæplega 90% lána.„Eru ekki of margar hafnir reknar á svæðinu?“, spurði Kristmundur og velti jafnframt upp þeirri spurningu hvernig hægt væri að skera niður gjöld og auka tekjur samlagsins.Þorsteinn Erlingsson (D), sem á sæti í stjórn HSS, sagði að tekjuöflun hafnanna hefði ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. „Við gerðum ráð fyrir að fá um 19 millj. kr. á ári fyrir olíuflutninga um höfnina í Helguvík, sem hefur ekki gengið eftir. Við horfum þó bjartsýnum augum til framtíðar og munum reyna allt til að auka tekjur hafnanna, en því miður er hvorki hægt að draga gjöldin meira saman né loka höfnum“, sagði Þorsteinn og minntist á tekjustofna sem vel hefðu gengið, eins og sements- og loðnuverksmiðjurnar í Helguvík og viðkomu skemmtiferðaskipa þar.Jónína Sanders (D) sagði að skoða þyrfti nánar hvernig hægt væri að auka sjóflutninga, og þar með tekjur hafnanna á svæðinu, því eins og staðan væri í dag þá virtist það vera hagkvæmara fyrir fyrirtæki að flytja varning landleiðina. „Menn verða að reyna að fjölga viðskiptavinum hafnanna eins og hægt er“, sagði Jónína.Kjartan Már Kjartansson (B), tók einnig til máls og vakti athygli fundarmanna á því að eitt af verkefnum Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar, væri að fá fleiri skemmtiferðaskip í Helguvíkurhöfn. „Á síðasta ári komu hingað 6 slík skip en á þessu ári er gert ráð fyrir 12 skipum. Þetta eru að mestu farþega- og áhafnaskipti í tengslum við flugvöllinn, sem ættu jafnframt að draga úr flutningum um Reykjanesbrautina“, sagði Kjartan Már.