Takmarkað heimsóknir leyfðar á ný á Hrafnistuheimilunum
Í samræmi við tillögur vinnuhóps á vegum stjórnvalda þess efnis að leyfa á ný heimsóknir aðstandenda til íbúa hjúkrunarheimila frá og með 4. maí, hafa Hrafnistuheimilin ákveðið að opna heimili sín á ný með ákveðnum skilyrðum.
Skilyrðin fela m.a. í sér að einungis mun einn aðstandandi geta komið í heimsókn í einu í samræmi við tillögur starfshópsins enda mikið í húfi að viðhalda megi þeim góða árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn heimsfaraldri COVID-19 hér á landi. Ljóst er að enn um sinn þarf að viðhalda ítrustu varkárni og virða í hvívetna allar sóttvarnaráðstafanir, einnig í heimsóknum til Hrafnistuheimilanna. Af þeim sökum verður enn um sinn nauðsynlegt að takmarka fjölda gesta hverju sinni til Hrafnistu, þar sem líkur á smiti aukast í réttu hlutfalli við aukinn gestafjölda. Því verður þess óskað að aðstandendur skipuleggi sín í millum hver fari í heimsókn á hverjum tíma.
Hrafnista starfrækir átta hjúkrunarheimili á suðvesturhorni landsins þar sem um 800 manns eru búsettir og hafa enn engin smit greinst meðal íbúa. Hrafnista sendi í gær, miðvikudag, bréf til um eitt þúsund aðstandenda með upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar og næstu skref. Þriðjudaginn 28. apríl munu stjórnendur heimilanna hafa samband við aðstandendur til að veita frekari upplýsingar og skipuleggja í samráði við þá heimsóknir þeirra frá og með 4. maí.
Það er einlæg von stjórnenda og starfsfólks Hrafnistu að rýmkun banns við heimsóknum létti íbúum og aðstandendum lífið enda engum léttbært, hvorki íbúum, aðstandendum né starfsfólki heimilanna. Vonir standa til að rýmka megi takmarkanirnar enn frekar í júní, segir í tilkynningu frá Hrafnistu.