Takmarka flugbrautarlýsingu í Keflavík
Framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli verður frestað og notkun ljósa á flugbrautum takmörkuð til að spara rekstarkostnað. Frá þessu var greint í fréttum Sjónvarps í kvöld. Stefán Thordersen, flugvallarstjóri, segir nauðsynlegt að sýna aðhald nú þegar farþegum og lendingum á flugvellinum fækkar.
Farþegum sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur fækkað verulega. Í október fækkaði þeim um tæplega fjórðung frá fyrra ári og lendingum fækkaði um rúmlega 15%. Í nóvember fækkaði farþegum um 36% og lendingum um tæpan fjórðung. Stefán segir að öryggi flugvallarins sé ekki teflt í tvísýnu með þessum aðgerðum.
Um 220 manns starfa hjá Flugmálastjórn og uppsagnir eru ekki fyrirhugaðar, segir jafnframt á ruv.is