Taka undir áhyggjur vegna dræmrar þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi
Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Suðurnesjabæjar þann 15. september lýsti íþrótta- og tómstundaráð yfir áhyggjum sínum á dræmri þátttöku barna og unglinga í Suðurnesjabæ í skipulögðu íþróttastarfi. Lagt var til við bæjarstjórn að Suðurnesjabær setji sér það markmið að auka þátttöku barna- og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi og leiti leiða til að greiða leið barna í Suðurnesjabæ til að komast á sínar æfingar til dæmis með frístundundaakstri.
Bæjarlistinn lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar:
„Eins og fram kemur í minnisblaði íþrótta- og tómstundaráðs og einnig í Skólapúlsinum, þá stunda börn í Suðurnesjabæ mun síður íþróttir en börn í öðrum sveitarfélögum. Jafnframt kemur fram að öll börn og ungmenni ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og sú þekkta staðreynd að hreyfing hefur víðtæk áhrif á heilsu og mikið forvarnargildi.
Bæjarlistinn fagnar fram kominni tillögu um að Suðurnesjabær setji sér það markmið að auka þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi m.a. með frístundaakstri. Auk þess vill Bæjarlistinn leggja áherslu á að auka fjölbreytni í íþróttastarfi í sveitarfélaginu og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar sem fyrst. Því óskum við eftir því að málinu verði aftur vísað til íþrótta- og tómstundaráðs og að ráðið komi fram með vel mótaðar tillögur til að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi strax á þessu ári.“
Í afgreiðslu bæjarstjórnar segir: „Bæjarstjórn tekur undir áhyggjur íþrótta- og tómstundaráðs vegna dræmrar þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi. Samþykkt samhljóða að fela íþrótta- og tómstundaráði að móta stefnu og markmið um aukna þátttöku barna og ungmenna í Suðurnesjabæ í íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig samþykkt samhljóða að í samstarfi við íþróttafélögin verði unnin greining á þörf fyrir frístundaakstur og kostnaður metinn, niðurstöður verði lagðar fyrir bæjarráð hið fyrsta.“