Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Taka í notkun nýjar íbúðir fyrir fólk með fatlanir við Stapavelli
Laugardagur 30. september 2023 kl. 06:07

Taka í notkun nýjar íbúðir fyrir fólk með fatlanir við Stapavelli

Það var hátíðleg stund hjá nokkrum fötluðum einstaklingum í Reykjanesbæ þegar nýjar íbúðir við Stapavelli 16–28 í Reykjanesbæ voru formlega afhentar. Það er Brynja leigufélag sem lét byggja raðhúsið við Stapavelli sem í eru sjö íbúðir. Félagið er sjálfseignarstofnun með það hlutverk að eiga og reka íbúðir fyrir öryrkja. Tilgangi sínum nær félagið með því að kaupa og byggja leiguíbúðir.

Brynja samdi við byggingarverktakann Sparra ehf. í Reykjanesbæ um byggingu á sjö íbúða raðhúsi að Stapavöllum 16–28 í apríl 2022. Húsin eru hönnuð af Arkís arkitektum. Um er að ræða sex tveggja herbergja íbúðir og eina þriggja herbergja íbúð. Hverri íbúð fylgir sér verönd og útigeymsla. Þá fylgir hverri íbúð bílastæði á lóð. Íbúðirnar falla undir lög um almennar íbúðir og njóta stofnstyrkja sem nema 18% af áætluðum byggingarkostnaði frá ríkinu og 12% frá Reykjanesbæ. Langtímafjármögnun er á hendi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar, og Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju leigufélags, undirrita samninga um rekstur við Stapavelli 16–28.

Á næstu dögum og vikum flytja einstaklingar með fatlanir inn í sex af sjö íbúðunum en sjöundu íbúðina hefur Reykjanesbær tekið á leigu. Þar verður aðstaða fyrir starfsfólk velferðarsviðs Reykjanesbæjar sem mun þjónusta íbúa hússins. Jóhann Kristinn Pétursson, fráfarandi stjórnandi Hæfingarstöðvarinnar í Reykjanesbæ, mun taka við stjórn starfseminnar við Stapavelli ásamt samstarfsfólki.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, og Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju leigufélags, undirrita viljayfirlýsingu um byggingu allt að 37 íbúða í Reykjanesbæ á næstu misserum. VF/Hilmar Bragi

Í ávarpi Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, við afhendingu íbúðanna kom fram að þörfin fyrir sérstaklega hannað húsnæði fyrir fólk með fatlanir var öllum kunn. Búið var að jarðvegsskipta lóð fyrir raðhús með fjórum íbúðum við Stapavelli en með breytingum á skipulagi var bæjaryfirvöldum gert kleift að hafa íbúðirnar sjö talsins.

Brynja leigufélag, sem er félag á vegum Öryrkjabandalags Íslands, er samstarfsaðili Reykjanesbæjar í þessu verkefni við Stapavelli. Brynja sá um að láta byggja húsið og annast rekstur þess. Fyrir á og rekur leigufélagið önnur húsnæðisúrræði fyrir sína skjólstæðinga í Reykjanesbæ, m.a. við Seljudal í Innri-Njarðvík. Við afhendingu íbúðanna við Stapavelli var undirrituð viljayfirlýsing um byggingu annarar raðhúsalengju sem staðsett verður á Ásbrú í Reykjanesbæ. Í viljayfirlýsingunni er kveðið á um að Brynja leigufélag mun á næstu misserum tvöfalda eignasafn sitt í Reykjanesbæ með byggingu allt að 37 íbúða fyrir fólk með fatlanir.

Séð inn í íbúð sem nýtt verður fyrir starfsfólk velferðarsvið sem mun þjónusta íbúðakjarnann við Stapavelli.