Tafir í landamæraeftirliti vegna verkfalls
Vegna verkfalls SFR hafa orðið tafir á flugi um Keflavíkurflugvöll. Landamæraverðir eru í SFR en lögreglumenn sinna landamæraeftirlitinu í verkfallinu. Færri hlið eru opin og var varað við því í gær að raðir gætu myndast við vegabréfahliðin. Tafirnar eiga þó eingöngu við um flug frá Bretlandi og Norður-Ameríku.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir á mbl.is í morgun að langar biðraðir mynduðust í vegabréfaeftirlitinu.
Að sögn Guðna voru fjölmargir starfsmenn Isavia á staðnum og buðu fólki upp á vatn og fullvissuðu það um að það myndi ekki missa af flugi þrátt fyrir að biðin væri löng. Hann segir að farþegar hafi almennt tekið þessu vel og sýnt skilning enda allir fullvissaðir um að flugvélin færi ekki án þeirra.