Tæknismiðja stofnuð á Suðurnesjum
Verður staðsett í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja og aðgengileg öllum íbúum Suðurnesja
Skrifað var undir samning um rekstur Fab Lab smiðju í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tæknismiðjan mun opna síðla sumars og verða opin öllum, bæði nemendum FS og öðrum íbúum Suðurnesja.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, voru þar ásamt bæjarstjórum sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, stjórnendum menntastofnana, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og öðrum sem hafa unnið að undirbúningi Fab Lab smiðju í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangurinn var að skrifa undir samninga um stofnun Fab Lab smiðjunnar en samningarnir styðja við rekstur smiðjunnar og sameiginlega þátttöku þeirra sem koma að verkefninu.
Fab Lab Suðurnesja verður staðsett í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Notendur smiðjunnar munu hafa aðgang að þrívíddarprenturum, laserskerum, vínilskerum, fræsivélum, rafeindabúnaði og fleiri tækjum. Markmiðið með smiðjunni er meðal annars að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Einnig að auka áhuga nemenda grunn- og framhaldsskóla á verk- og tækninámi, auka almennt tæknilæsi, tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmiðið er þannig að efla samkeppnishæfni íbúa, fyrirtækja og stofnana á svæðinu. Íbúar á Suðurnesjum eru ríflega 30 þúsund og hefur fjölgað mikið síðustu áratugi. Fab Lab Suðurnesja mun þjóna íbúum á Suðurnesjum; nemendum, kennurum, frumkvöðlum, listafólki, atvinnuleitendum og starfsfólki fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana.
Breytingar í menntamálum
Bjarklind Sigurðardóttir, verkefnastjóri Tæknismiðjunnar, segir að róttækar breytingar í samfélaginu og atvinnulífi kalli á breytingar í menntamálum. „Á Suðurnesjum eru mjög öflug fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum sem reiða sig á tækninýjungar. Þar má nefna líftæknifyrirtæki, orkufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, flugtengd fyrirtæki, ferðaþjónustufyrirtæki og verslanir svo eitthvað sé nefnt. Nokkur fyrirtæki á Suðurnesjum hafa nú þegar sýnt smiðjunni stuðning með styrkveitingum til tækjakaupa. Fab Lab Suðurnesja er einnig góður vettvangur til að kynna fyrir nemendahópum þau framtíðarstörf sem þarf að sinna innan fyrirtækja. Hægt er að kynna störf í gegnum verkefni sem nemendur leysa sjálfir út frá ráðgjöf, námskeiðum eða kynningum starfsmanna. Við okkur blasa mikil tækifæri til að nýta innviði og þekkingu fyrirtækja á Suðurnesjum til að efla unga fólkið og kveikja áhuga þess og annarra íbúa á að nýta tæknina til að vera skapandi þátttakendur í tækniuppbyggingu framtíðarinnar.
Það er mikill áhugi á Suðurnesjum fyrir Fab Lab smiðjunni og að efla þannig nemendur og aðra íbúa á svæðinu. Sumir skólar á svæðinu hafa þegar stigið sín fyrstu skref með tækjakaupum. Félagasamtök hafa til að mynda afhent grunnskólum í Reykjanesbæ þrívíddarprentara að gjöf og víða má sjá framtak samtaka og einstaklinga í þessa veru. Margt smátt gerir eitt stórt. Fab Lab Suðurnesja mun í framtíðinni styðja við og aðstoða einstaklinga jafnt sem starfsfólk fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana til að halda áfram góðri vinnu. Við höldum áfram að nýta orkuna og þjónustulundina sem býr í okkar samfélagi til góðra verka,“ segir Bjarklind.
Eigum að læra meðan við lifum
Ráðherrarnir voru að vonum ánægðir með þetta skemmtilega verkefni.
„Ég sá að það var pottur brotinn og það vantaði augljóslega Fab Lab hér í Reykjanesbæ og þess vegna setti ég það snemma á dagskrá og því ótrúlega glöð að þetta sé komið í þennan farveg, að það sé hægt að byrja,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hver er reynslan af þessu?
„Reynslan er ótrúlega góð og sérstaklega þar sem samfélagið allt nýtir aðstöðuna. Við erum að sjá það að það eru ótrúlegustu nýsköpunarverkefni sprottið upp úr tæknismiðjum, jafnvel verkefni sem eru að verða stór fyrirtæki í dag, en ekki síst líka til að vekja áhuga og færnina í ýmsum stafrænum málum sem mikil þörf verður á gagnvart færniþörf framtíðarinnar. Við sjáum það að aðgengi að svona getur auðgað atvinnulíf og fyrirtæki, getur aukið áhuga ungs fólks á ákveðnum greinum og þau geta fundið áhuga sínum farveg. En ekki síst líka frumkvöðlar, ungt fólk, eldra fólk getur komið og prófað hlutina og hugmyndir sínar og látið þær verða að veruleika“.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir Fab Lab eða tæknismiðjuna verða hugsaða þannig að á þennan stað geti allir leitað í samfélaginu sem vilji rækta áfram og þroska hugmyndir, fá hugmyndir og vinna með þær áfram. „Nám á að vera alltaf alsstaðar. Við eigum ekki að klára nám þegar við ljúkum formlega skólagöngu. Við eigum að læra meðan við lifum,“ segir Ásmundur.