Tæknifræðinám Keilis fær hitakerfahermi
Háskóli Íslands og Keilir hafa fengið afhentan tölvustýrðan hitakerfahermi að gjöf frá Gesti Gunnarssyni tæknifræðingi, sem mun nýtast við kennslu í tæknifræðinámi skólans.
Hermirinn verður nýttur við kennslu í verklegum tilraunum í varma- og straumfræði bæði við Háskóla Íslands og í tæknifræðinámi orku- og tækniskóla Keilis. Gestur gefur hitakerfaherminn í tilefni af aldarafmælis Háskóla Íslands til minningarar um föður sinn, Gunnar Gestsson pípulagningameistara sem lést þann 11. mars 1989.
Hermirinn er nýttur til greiningar á nýtingu heits vatns og könnun á varmatapi við húshitun. Hann er einnig notaður til greiningar á hegðun pípukerfa í húsum. Hermirinn er gerður fyrir íslenskar aðstæður, þ.e. með hefðbundið hitaveituinntak sem tengt er þremur hitakerfum, ofnakerfi, gólfhitakerfi og 15 kW hitablásara. Ofnakerfinu og hitablásaranum er stýrt með Danfoss-tölvu en gólfhitakerfinu með tölvu af Siemens-gerð.
Karl Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður tæknifræðináms Keilis og Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands og varaformaður stjórnar Keilis, veittu búnaðinum formlega viðtöku í Keili þriðjudaginn 20. desember síðastliðinn.
Mynd: Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, Karl Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður tæknifræðináms Keilis, Gestur Gunnarsson, tæknifræðingur, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands og Sæunn Stefánsdóttir Verkefnisstjóri aldarafmælis Háskóla Íslands