Tadas fékk 10 á sveinsprófi í múrsmíði
– Múrbúðin færði honum gyllta múrskeið
Tadas Augustinaitis starfar í múrverki hjá Húsanesi í Reykjanesbæ, sem þessar vikurnar vinnur að standsetningu á fjölbýlishúsi við Bjarkardal í Innri Njarðvík. Tadas tók á dögunum sveinspróf í múrsmíði við Tækniskólann og fékk hæstu mögulegu einkunn eða 10 á prófinu.
Sveinsstykkið sem Tadas vann að var óaðfinnanlegt. Það var gólf með hlöðnum veggjum, sem voru 1,5 metrar á hæð og lengd. Inn í vinkilinn voru hlaðnar sjö tröppur og allt verkið pússað. Einn veggurinn var flísalagður, annar steinaður og sá þriðji fínpússaður. Á einum vegg var skarð fyrir glugga, segir í lýsingu á verkinu. Í Morgunblaðinu er haft eftir Rafni Gunnarssyni, kennara hans, að Tadas sé algjör snillingur, mjög handlaginn og sérlega þægilegur í allri umgengni.
Tadas er 33 ára og kemur frá Litháen. Hann hefur búið í Keflavík í um tíu ár en hann kom hingað fyrst árið 2006. Kona hans, Kornelija Augustinaitienë, er einnig frá Litháen og eiga þau átta ára gamlan son, Justas Augustinaitis. Frá því Tadas kom til Íslands hefur hann alla tíð unnið hjá Húsanesi. Þar er hann helst í að múra og flísaleggja en tekur einnig þátt í steypuvinnu, járnabindingum og ísetningu glugga.
Tadas fékk óvænta heimsókn í vinnuna í Bjarkardalinn í síðustu viku þegar þangað voru mættir tveir fulltrúar Múrbúðarinnar til að færa Tadas gjöf í tilefni af þessum glæsilega árangri, að fá 10 á sveinsprófinu. Tadas fékk af því tilefni gyllta múrskeið frá Múrbúðinni og viðurkenningarskjal. Þá fékk Tadas einnig sérstaka viðurkenningu á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur á dögunum.
Tadas Augustinaitis fyrir miðju með gylltu múrskeiðina. Á myndinni eru f.v.: Jón Óskar Hauksson frá Húsanesi, Bogi Kristjánsson verslunarstjóri Múrbúðarinnar í Reykjanesbæ, Tadas, Halldór Ragnarsson frá Húsanesi og Gunnlaugur Þór Guðmundsson sölumaður hjá Múrbúðinni. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fjölbýlishúsið í Bjarkardal þar sem Tadas vinnur við múrverk.