Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Sýslumaður þinglýsti án samþykkis Reykjanesbæjar, segir Böðvar
Fimmtudagur 26. ágúst 2010 kl. 08:27

Sýslumaður þinglýsti án samþykkis Reykjanesbæjar, segir Böðvar


Sýslumaðurinn í Keflavík þinglýsti skuldabréfum án samþykkis Byggingafulltrúa Reykjanesbæjar. Því voru engin mistök gerð hjá bæjarstjóra og byggingafulltrúa bæjarins, segir Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, í athugasemd sem hann hefur sent frá sér vegna fréttar DV þess efnis að Toppurinn hafi veðsett lóð í eigu Reykjanesbæjar fyrir einn milljað króna og kröfuhafar VBS eigi nú kröfu í umrætt land.

Í frétt DV í gær, sem vitnað var í á VF, segir að einkahlutafélagið Toppurinn innflutningur ehf. hafi 1. júní 2006 gert lóðaleigusamning við Reykjanesbæ til 75 ára um leigu á byggingarlóðinni Hjallar 1, þar sem Motopark átti að rísa.  Í kjölfarið hafi fyrirtækið veðsett byggingalóðina „upp í rjáfur“ eins og það er orðað í fréttinni. DV vísaði til þinglýsingavottorðs sem blaðið sagðist hafa undir höndum þessu til staðfestingar en þar kæmi fram VBS hafi hefið út skuldabréf fyrir þessari sömu lóð.
Þannig hafi Toppurinn fengið milljarð að láni með því að veðsetja lóð í eigu Reykjanesbæjar.
Frétt DV greindi frá því að  Reykjanesbær hafi samþykkt veðsetninu landsins, þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um að ekki sé heimilt að veðsetja eða framselja byggingalóð fyrr en mannvirki séu orðin fokheld.

Böðvar Jónsson segir í athugasemd sinni að Sýslumaðurinn í Keflavík hafi þinglýst umræddum skuldabréfum án samþykkis Byggingafulltrúa Reykjanesbæjar og hafi þinglýsingunni verið mótmælt af fulltrúum Reykjanesbæjar þegar upplýsingar um það bárust Reykjanesbæ.

„ Með bréfi sýslumannsins til VBS þann 15.janúar 2008 var tilkynnt að um mistök hefði verið að ræða og yrði þinglýsingin því leiðrétt og felld niður.

Þann 22.janúar 2008 gerðu VBS og Reykjanesbær með sér samkomulag um að veðsetningin gæti staðið áfram með því skilyrði að uppbyggingu svæðisins yrði lokið innan 5 ára frá gildistöku lóðarleigusamnings (þ.e. fyrir mitt ár 2011). Að öðrum kosti félli bæði lóðarúthlutunin og veðsetningin niður. Var það í samræmi við skilyrði sem sett höfðu verið við úhlutun lóðarinnar til Toppsins á árinu 2006.

Í kjölfar hrunsins og þegar ljóst var að uppbyggingaráform yrðu ekki í samræmi við þann hraða sem áður var ráðgerður gerðu VBS og Reykjanesbær með sér nýtt samkomulag, í febrúar á þessu ári, um að VBS skilaði til baka um 70% af því landssvæði sem tilheyrðu Hjöllum 1. Sá hluti landsins er kominn á ný til Reykjanesbæjar og er að sjálfsögðu veðbandalaus eins og eðlilegt er.

Á hinum 30% landssvæðisins er búið að ganga frá deiliskipulagi og hefur nokkrum lóðum verið úthlutað, m.a. undir Ökugerði og umferðaröryggissvæði sem nú er verið að byggja upp og verður vonandi tilbúið fyrir framtíðarökumenn landsins á næstu vikum eða mánuðum. Ákvæði um niðurfellingar veðsetningar gilda áfram gagnvart öðrum lóðum en krafa um uppbyggingarhraða hefur verið framlengd til 1.ágúst 2013. Verði svæðið því ekki uppbyggt fyrir þann tíma falla veðsetningar niður og lóðaúthlutun sömuleiðis. Kröfuhafar VBS eiga því ekki kröfu í annað en að taka við landinu með sömu skilyrðum og lóðarsamningurinn sagði til um, þ.e. að fá þessar lóðir og byggja þær upp á næstu 3 árum.

Með fréttinni er látið að því liggja að mistök hafi verið gerð hjá bæjarstjóra og byggingafulltrúa Reykjanesbæjar. Þar voru engin mistök gerð en vissulega voru það mistök hjá Sýslumanni að þinglýsa skuldabréfunum á sínum tíma. Þau mistök voru hins vegar leiðrétt,“ segir Böðvar ennfremur í athugsemd sinni.

----

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mynd: Fyrirætlanir um Motopark endaðu í gjaldþroti. Talsverðar jarðvegsframkvæmdir höfðu farið fram á lóðinni.