Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sýslumaður lokar ekki í Grindavík
Mánudagur 1. október 2012 kl. 16:09

Sýslumaður lokar ekki í Grindavík

Sýslumannsskrifstofunni í Grindavík verður ekki lokað eins og lesa mátti út úr frétt á vef Grindavíkurbæjar í dag og Víkurfréttir vitnuðu til. Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir nú áðan að til lokunar komi ekki.

Í fréttinni frá því fyrr í dag sagði að starfsmanni sýsluskrifstofunnar í Grindavík hafi verið sagt upp störfum og það hafi verið gert í ljósi þess að fjárveiting sem veitt hefur verið vegna sýsluskrifstofunnar í Grindavík er ekki í frumvarpi til fjárlaga ársins 2013.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, átti fund með bæjarráði Grindavíkur sl. miðvikudag um málið.

Á fundinum ítrekaði Bæjarráð Grindavíkur að í 3. gr. reglugerðar um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra nr. 66/2007 er mælt fyrir um að það skuli vera útibú frá sýslumanni í Grindavík. Sýslumanni er því óheimilt að loka skrifstofunni án heimildar innanríkisráðherra.

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að óska eftir fundi með innanríkisráðherra hið fyrsta vegna málsins.

Í samtali við Víkurfréttir nú áðan sagði Þórólfur sýslumaður að til lokunar í Grindavík komi ekki. Þeim skilaboðum hafi verið komið til bæjarráðs Grindavíkur sl. fimmtudag.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024