Syrgja samfélagið í Grindavík
Hrauntaumurinn frá fyrri gossprungunni í morgun er kominn yfir Grindavíkurveginn og einnig hitaveitulögn þar skammt frá. Þá er hraun runnið inn í bæinn við götuna Efrahóp, nyrsta í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri sagði í viðtali á Rás 2 að það væri ömurlegt að fylgjast með þessu gerast, sjá bæinn verða undir í baráttunni við náttúruöflin. „Þetta er bara ólýsanlegt og erfitt að standa frammi fyrir þessu, sjá þetta raungerast ofan á allt sem Grindvíkingar hafa upplifað síðustu vikur. Þetta er ömurleg staða,“ sagði Fannar.
Sólný Pálsdóttir var einnig í viðtali og hún sagðist syrgja samfélagið í Grindavík, þrátt fyrir að halda alltaf í von. „Ég held að við séum öll í doða. Við höfum haldið í vonina að við færum aftur heim en þetta lítur ekki vel út. Ég er sorgmædd og dofin en ætla samt að finna vonina, þó raunsætt sé þetta ekki góð staða.
Við Grindvíkingar eru þakklát fyrir hlýhug Íslendinga en það er ljóst að stjórnvöld verða nú að girða sig í brók í húsnæðismálunum. Þar eru margir í vandræðum. Grindvíkingar hafa verið eins og ein fjölskylda en nú erum við að missa mikið og útlitið ekki gott,“ sagði Sólný.