Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sýnum nýbúum að  við erum sanngjörn þjóð
Atvikið átti sér stað í fyrirtæki í Reykjanesbæ.
Föstudagur 23. júní 2017 kl. 06:00

Sýnum nýbúum að við erum sanngjörn þjóð

-Neitaði útlendingum að afgreiða sig sökum þess að þeir töluðu ekki góða íslensku

„Það er okkar skylda sem þjóð að sýna útlendingum sem koma hingað í leit að betra lífi samhug, tillitsemi og þolinmæði er þau festa sig í sessi hér á landi og gera allt sem við getum til að létta þeim lífið,“ segir Atli Rafn Eyþórsson, en á dögunum var hann staddur í fyrirtæki í Reykjanesbæ þar sem einstaklingur neitaði að leyfa útlendingum að afgreiða sig sökum þess að þeir töluðu ekki góða íslensku.

Í fyrirtækinu voru tveir afgreiðslumenn af erlendu bergi brotnir og segir Atli þá hafa reynt að gera sitt besta til að þjóna viðskiptavinum sínum. „Allt gekk vel þangað til að einstaklingur neitaði að láta þessa aðila afgreiða sig. Eftir leiðinda orðaskipti kom íslenskur afgreiðsluaðili og leysti málið, en þessum útlendingum leið mjög illa út af þessari neikvæðni gagnvart þeim. Staðreyndin er sú að hér er orðið alþjóðlegt samfélag og ég tel það gott. Sýnum nýbúum að við erum sanngjörn þjóð sem bjóðum alla þá, sem hér vilja búa og vinna, velkomna og burt með rasisma.“

Atli segir einstaklinginn hafa sýnt afgreiðslufólkinu mikla vanvirðingu og ókurteisi. „Það fór alveg óskaplega í taugarnar á henni að þau töluðu litla sem enga íslensku. Hún var bara hin versta og æst. Þá kom þarna kona sem bjargaði því, að ég held verslunarstjóri, og spurði bara hvað hægt væri að gera fyrir hana. Hún sagði: „Ég vil fá íslenskan afgreiðslumann. Ég er á Íslandi, ég er íslensk og ég kann ekkert útlendingamál,“ eða eitthvað í þá áttina. Hún fær þá afgreiðslu sem hún vildi og þessi kona var afgreidd.“ Atli segir þó afgreiðslufólkið hafa afgreitt sig án allra vandkvæða. „Maður getur alltaf einhvern veginn reynt að útskýra fyrir fólki með einhverjum handabendingum eða slíku. Allir sem voru þarna inni voru bara brosandi og allt í lagi. Það vantaði hjá henni alla tillitssemi og almenna kurteisi gagnvart fólki sem er að reyna að standa hérna í fæturna og lifa lífinu.“

Atli vill benda fólki á að það þurfi ekki þessi læti og að grunnatriðið sé að sýna virðingu og kurteisi því ef það sé gert gangi allt betur. „Það er alveg nauðsynlegt að fá mismunandi menningu til Íslands. Mér finnst voðalega gott að hafa þetta svona. Þetta gerir fjölbreytnina meiri og lífið skemmtilegra.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024