Syntu á haf út eftir ölvuðum manni
Ölvaður maður má þakka hraustum lögregluþjónum frá lögreglunni á Suðurnesjum og starfsmanni Brunavarna Suðurnesja fyrir líf sitt, en tveir lögregluþjónar og slökkviliðsmaður syntu á eftir þeim ölvaða eftir að hann hafði stungið sér til sunds nærri Keflavíkurhöfn seint í gærkvöldi. Sjónarvottur, sem Víkurfréttir ræddu við, sagði að lögregluþjónarnir hafi náð manninum þegar hann var kominn um 200 metra frá landi.
Ekki er vitað á þessari stundu hvað manninum gekk til og hver ástæðan var fyrir því að hann stakk sér til sunds. Mikill viðbúnaður var við Keflavíkurhöfn vegna þessa en eins og fyrr segir fóru björgunarmenn frá lögreglu og slökkviliði í sjóinn á eftir manninum og syntu hann uppi. Manninum og lögregluþjónunum var síðan komið um borð í björgunarbát frá Björgunarsveitinni Suðurnes, sem einnig var kölluð út vegna málsins.
Björgunarbáturinn kom síðan með sundkappana, þann ölvaða og björgunarmennina, í Keflavíkurhöfn þar sem hinn ölvaði var settur um borð í sjúkrabíl og fluttur á sjúkrahús til skoðunar.
Sléttur sjór var við Keflavík í kvöld, en nokkur straumur er á þessum stað og því hefði getað verið erfitt fyrir ölvaða sundkappann að komast í land á ný.
Myndir: Lögreglumenn við Keflavíkurhöfn seint í gærkvöldi, laugardagskvöld, þegar björgunaraðgerðum var lokið.
Neðri mynd: Maðurinn stakk sér til sunds á þessum slóðum en björgunarmenn náðu honum þegar hann var kominn um 200 metra frá landi.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
.