Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Syntu á eftir björgunarskipinu
Föstudagur 6. desember 2002 kl. 09:45

Syntu á eftir björgunarskipinu

Tveir félagar í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði syntu út að björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein í morgun eftir að flotbryggja sem skipið var bundið við slitnaði upp í miklu ólagi í höfninni. Línuskipið Freyja GK var einnig bundið við bryggjuna. Sigurður Stefánsson kafari í félagi við annan björgunarsveitarmeðlim sjósettu systurbát á björgunarskipinu og fóru á honum að landi til að sækja fleiri björgunarmenn.Á flóðinu kl. 06 í morgun var snælduvitlaust veður í Sandgerðishöfn og gengu brotin yfir sjóvarnagarða við höfnina. Flotbryggjan sem skipin voru bundin við er nú úti í miðri höfn en þegar menn komu að höfninni í morgun óttuðust menn hið versta og héldu um tíma að björgunarskipið og Freyja GK myndu reka upp í fjöru. Tugir smábáta voru einnig á næstu flutbryggjum og hefðu verið í hættu ef skipin hefðu farið á þá.
Í höfninni voru einnig tveir togarar Nesfisks, Sóley Sigurjóns og Berglín. Að sögn Sigurðar var sem togararnir væru úti í stórsjó, þvílíkur var veðurhamurinn. Um kl. 08 í morgun gekk veðrið niður og nú bíða menn birtingar svo hægt sé að huga að festingum á flotbryggjunni.

Á meðfylgjandi mynd má sjá flotbryggjuna á floti úti í miðri Sandgerðishöfn á níunda tímanum í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024