Synt með höfrungum
Í síðustu viku fór Tómas Knútsson, kafari, ásamt útsendara VF og fleira fólki út á Garðsjó í þeim tilgangi að synda með höfrungum. Hugmyndin hljómar undarlega að óreyndu en upplifunin var engu lík. Höfrungarnir eru með eindæmum mannelskir og léku á alls oddi þegar mannfólkið synti með þeim og söng fyrir þá. Þeir stukku og stungu sér allt í kringum okkur, og ekki var annað hægt en að dást að fegurð þeirra og fimi.Sjórinn er mettaður af æti á þessu svæði og dýralífið því mjög fjölskrúðugt. Marglytturnar svamla þarna um í hópum og í fjarlægð eru þær mjög fallegar, en þegar þær nálgast þá er betra að forða sér.Tómas er um þessar mundir að gera upp húsnæði í Grófinni þar sem hann hyggst opna sportköfunarskóla. Þá mun áhugasömum gefast kostur á að læra listina að kafa en fátt er skemmtilegra og meira endurnærandi en að skella sér út á bát í kvöldhúminu, stinga sér til sunds og svamla með skepnum undirdjúpanna.