Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sýning opnuð á verkum Erlings Jónssonar og samtímamanna hans
Þriðjudagur 15. mars 2005 kl. 10:46

Sýning opnuð á verkum Erlings Jónssonar og samtímamanna hans

Sýning á verkum Erlings Jónssonar og samtímamanna hans var opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar um helgina að viðstöddu fjölmenni. Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna lágmyndir Erlings Jónssonar og brjóstmyndir en þær hafa ekki áður verið sýndar saman og sumar aldrei sést opinberlega fyrr. Einnig er persónu Erlings gerð skil með ljósmyndum Arnar Fells sem heimsótti listamanninn til Noregs og á myndbandi enda listamaðurinn listaverk í sjálfu sér.

Í sýningarskránni segir Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur m.a. um Erling:
„Þetta tvennt, innlifunarhæfileikinn og bókmenntirnar, er sennilega það sem sett hefur ríkulegast mark á listsköpun Erlings sjálfs. Hið fyrrnefnda skýrir að hluta næmið sem kemur fram í myndum af samtímamönnum, meðvitundina um að sérhver andlitsdráttur skipti máli þegar móta skal eftir lifandi andliti. Bókmenntirnar eru svo kveikjan að mörgum og fjölbreytilegum skúlptúrum listamannsins, sem velunnarar hans í Keflavík hafa sett upp í bæjarlandinu á undanförnum árum.“

 Í sýningarskránni er einnig yfirlitskort af bænum þar sem búið er að staðsetja útiverk Erlings og gestum þannig gert auðveldara að skoða þau í umhverfinu.
Auk verka Erlings Jónssonar má sjá á sýningunni ljósmyndir eftir Arnar Fells, Tom Sandberg og Vigdis Hindhammer og myndband eftir Viðar Oddgeirsson sem m.a. er byggt á viðtali Jónatans Garðarssonar við Erling.

Sýningin er opin alla daga frá  kl. 13:00 – 17:30 og stendur til 24. apríl 2005.

VF-myndir/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024