Sýnileiki Reykjaness eykst
Nýir liðsmenn hafa skilað gríðarlegri aukningu í aðsókn á miðla Markaðsstofu Reykjaness
Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur borist öflugur liðsauki í sumar en þrír starfsmenn voru ráðnir til þess að sinna verkefnum fyrir Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanes UNESCO Global Geopark.
Starfsmennirnir eru Hörður Kristleifsson, ljósmyndari, Gunnhildur Björg Baldursdóttir og Smári Hólm Jónsson og voru þau ráðin með styrk frá Vinnumálastofnun.
Verkefni þeirra eru öll á sviði markaðsmála og má þar nefna uppfærslu á nýrri vefsíðu Markaðsstofunnar, samskipti við fjölmiðla og greinaskrif, sem og birtingu efnis á samfélagsmiðlum. Liðsaukinn hefur þegar skilað Markaðsstofunni gríðarlegri aukningu á miðlum og má þar nefna að fylgjendur YouTube-rásar Markaðsstofu Reykjaness (Visit Reykjanes Iceland) eru nú orðnir yfir 1.400. Sýnileiki Reykjanessins hefur því verið aukinn margfalt í sumar og þá hefur nýjasta viðbótin, eldgosið í Geldingadölum, haft mikið aðdráttarafl og verið góð kynning fyrir Reykjanes.