Sýknuð af kröfu AGC vegna Helguvíkur
Reykjaneshöfn, Reykjanesbær og Thorsil ehf. hafa verið sýknuð af kröfu Atlantic Green Chemicals [AGC ehf.] með dómi Héraðsdóms Reykjaness 19. október síðastliðinn. AGC ehf. var jafnframt dæmt til að greiða stefndu hverju um sig málskostnað.
AGC ehf. hugðist reisa lífalkóhól- og glýkólverksmiðju í Helguvík og hafði augastað á lóðinni Stakksbraut 4, síðar Berghólabraut 4. Samningurinn var ekki bindandi og úthlutaði Reykjaneshöfn Berghólabraut 4 til Thorsil ehf.
Í viðræðum við ráðamenn Reykjanesbæjar hafði stefnandi AGC ehf. talið að vilyrði fyrir lóðinni Berghólabraut 4 væri bindandi og fæli í sér forgangsrétt varðandi úthlutun lóðarinnar. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að viljayfirlýsing Reykjaneshafnar fæli einungis í sér að höfnin væri reiðubúin að úthluta lóð til AGC ehf. ef um semdist og því ekki um skuldbindandi samning um úthlutun lóðarinnar að ræða á milli aðila.
Þetta var í annað sinn sem AGC ehf. hefur uppi kröfur af þessum toga á hendur Reykjaneshöfn, Reykjanesbæ og Thorsil ehf. Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 26. nóvember 2015 var kröfum AGC ehf. á hendur þessum aðilum vísað frá dómi.