Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Svona er síldin úr Kolgrafarfirði unnin
Föstudagur 8. febrúar 2013 kl. 18:39

Svona er síldin úr Kolgrafarfirði unnin

Um 180 tonn af síld sem rekið hefur á land í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi hafa verið flutt til vinnslu hjá Skinnfiski ehf. í Sandgerði. Þar er síldin unnin í minkafóður og flutt til Danmerkur.

Vinnudagarnir í Skinnfiski hafa verið langir og nú er svo komið að frystigeymslur fyrirtækisins eru að fyllast. Hefur m.a. verið gripið til þess ráðs að flytja afurðir í frystigeymslur í Hafnarfirði.

Skinnfiskur hefur verið að kaupa síldina úr Kolgrafarfirði af skólafólki og íþróttafélögum sem hafa farið um fjörurnar í firðinum og safnað síldinni í kör. Greiddar eru átta krónur fyrir kílóið og því eru tonnin 180 að gefa af sér næstum eina og hálfa milljón króna í sjóði þeirra sem eru að afla fjár í ferðasjóði sína.

Ekki er vitað hversu mikið lengur er hægt að taka við síld úr firðinum. Bæði er frystipláss takmarkað og þá eru einnig kröfur um að hráefnið sé nokkuð ferskt þegar það kemur til vinnslunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðfylgjandi myndir voru teknar í Skinnfiski í dag. Ein þeirra sýnir fullan frystiklefa af stórum fóðurklumpum sem eru „steyptir“ úr síldinni sem er búið að hakka niður. Þá má sjá lyftara með síldarklumpa á leið í frystiklefann. Þá má loks sjá frystitækin sem frysta fóðrið. Meira að segja brettin undir fóðrið eru úr sama hráefni. VF-myndir: Hilmar Bragi