Svona ætlar Hrafnista að reka húkrunarheimilið á Nesvöllum
Hrafnista mun sjá um rekstur hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ á grundvelli samnings við Reykjanesbæ. Nokkuð heitar umræður hafa verið í samfélaginu á Suðurnesjum síðustu vikur vegna þessa samnings en valið stóð á milli samnings við Hrafnistu eða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Síðustu daga hafa stjórnendur Hrafnistuheimilanna verið með kynningarfundi á Nesvöllum fyrir m.a. starfsfólk af Garðvangi og Hlévangi þar sem starfsemi nýja hjúkrunarheimilisins er kynnt. Víkurfréttir hittu að máli þau Pétur Magnússon, forstjóra Hrafnistuheimilanna og Hrönn Ljótsdóttur, forstöðumann Hrafnistu í Kópavogi.
Hrafnista þjónar um 1000 öldruðum
Hrafnistuheimilin er í eigu Sjómannadagsráðs, samstarfsvettvangs sjómannafélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem hófu samstarf um ýmis sameiginleg hagsmunamál árið 1937. Þó segja megi að Hrafnista sé einkafyrirtæki er markmiðið samt að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Ólíkt flestum einkafyrirtækjum sem eiga að skila eigendum sínum fjárhagslegum arði, er slíkt ekki tilgangur Hrafnistu. Ef hagnaður er af starfsemi einhvers Hrafnistuheimilis fer það í frekari uppbyggingu húsnæðis eða þjónustu árið eftir. Upprunalega var starfsemin sett á laggirnar fyrir aldraða sjómenn, eiginkonur þeirra og ekkjur sjómanna (sem voru margar) en í dag eru allir jafnir og velkomnir á Hrafnistuheimilin.
Hrafnista sinnir umfangsmikilli starfsemi í dag á þremur stöðum: Í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi og þjónar um 1.000 öldruðum á degi hverjum. Hvert Hrafnistuheimili er sjálfstætt rekið og með sjálfstæðan fjárhag. Á hverju heimili er forstöðumaður sem stýrir daglegu starfi en til að ná fram samræmingu og samþættingu í starfseminni er ákveðið samstarf á milli heimilanna sem gerir það að verkum að hægt er að veita mun markvissari og fjölbreyttari starfsemi fyrir sömu krónutölu – nokkuð sem minni einingar geta aldrei gert. Heimilin hafa sameiginlega yfirstjórn sem mótar stefnu, heldur utan um samræmingu og er stöðugt að bera saman einstaka heimili, deildir og þjónustuþætti þannig að hægt sé að gera enn betur og bjóða öldruðum á Íslandi enn betri þjónustu. „Hrafnista hefur verið leiðandi í öldrunarþjónustu í landinu og höfum í gegnum tíðina verið óhrædd við að innleiða nýjungar í starfseminni ef við teljum þær til hagsbóta fyrir heimilisfólk og starfsfólk,“ segir Pétur.
Fjölbreytt þjónusta og búsetuúrræði
- Eruð þið spennt fyrir því að opna Hrafnistuheimili í Reykjanesbæ?
„Já, við erum í rauninni mjög spennt. Starfsemi góðra hjúkrunarheimila stendur og fellur með góðu starfsfólki. Það sem við þekkjum til Hlévangs og Garðvangs er að þar er margt mjög hæft starfsfólk. Nýja heimilið á Nesvöllum hefur alla burði til að verða eitt glæsilegasta hjúkrunarheimili landsins. Þar sem fer saman gott starfsfólk og gott húsnæði og þar er spennandi að fá að koma að málum,“ segir Pétur.
Ætlunin er Hrafnista starfræki nýtt og glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili á Nesvöllum annars vegar og hins vegar Hlévang, sem er eldra heimili með 30 hjúkrunarrýmum. „Áætlað er að nýja heimilið taki til starfa í mars en frá og með þeim tíma munum við einnig taka við starfsemi Hlévangs á árinu 2014. Hugmyndafræðin varðandi húsnæðið á Nesvöllum er einnig mjög í anda Hrafnistu. Það er að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu og fjölbreytt búsetuúrræði fyrir aldraða á sama staðnum þannig að sem flestir geti notið,“ bætir Pétur við.
Eins heimilislegt umhverfi og mögulegt er
- Hvernig er ykkar starfsemi öðruvísi en þau hjúkrunarheimili sem Suðurnesjamenn þekkja?
„Þróun í öldrunarþjónustu hefur verið töluvert mikil á síðustu árum. Viðamest í þessu sambandi hafa verið breytingar á hugsunarhætti: að horfa á íbúann sjálfan og skapa eins heimilislegt umhverfi og mögulegt er. Í augum margra eru hjúkrunarheimili sjúkrahús og starfsemin ætti því að vera svipuð. Einn stór munur er þó á og hann er sá að hjúkrunarheimili er heimili fólks. Ólíkt sjúkrahúsi, þar sem allir bíða eftir að útskrifast heim, eru þeir sem eru á hjúkrunarheimilinu heima hjá sér og fara ekkert annað til að „fara heim“. Þess vegna hefur þróunin verið sú að reyna færa hjúkrunarheimilin frá sjúkrahúsumhverfinu og yfir í heimilisumhverfi eins mikið og mögulegt er; þó aldrei á kostnað gæða umönnunar, hjúkrunar eða heilbrigðisþátta,“ segir Pétur.
Starfsfólk ekki í einkennisbúningi
Hrönn segir fjölda lítilla þátta skipta miklu máli eins og hugsunarhátt starfsfólks og samskiptaferli. Mörg hjúkrunarheimili hafi til dæmis valið þá leið að láta starfsfólk hætta að vera í einkennisbúningi sjúkrahúsa og vera í venjulegum fötum í vinnunni. Annað sé að leggja mikið upp úr sameiginlegum máltíðum þar sem allur matur sé lagður á borð og hver og einn fái sér af „eldhúsborðinu“ eins og hann vill í stað þess að leggja skammtaða diska fyrir hvern og einn. „Allir þessi þættir skipta miklu máli í daglegu lífi. Athyglisvert er að flest vinsælustu hjúkrunarheimilin hér á landi vinna í anda þessarar stefnu,“ segir Hrönn. Þá skipi sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og endurhæfing af ýmsu tagi æ stærri sess í nútíma öldrunarþjónustu. Þessa þætti leggi Hrafnista mikla áherslu á í sínu starfi en að mati Hrannar hafi Dvalarheimili á Suðurnesjum vart haft bolmagn til að sinna hingað til.
- Hvernig verður aðbúnaður íbúa? Hvernig verður aðstaða íbúa og þess háttar?
„Það er ekki orðum aukið að nota orðið „byltingarkennt“ þegar borinn er saman aðbúnaður íbúa á Nesvöllum og í Garðvangi, sem þrátt fyrir mjög góðan anda er orðið barn síns tíma út frá húsnæðislegu sjónarhorni. Nýja heimilið á Nesvöllum er auðvitað með allra bestu aðstöðu sem þekkist í dag sem gefur okkur mikla möguleika í allri hjúkrun og þjónustu sem er kærkomið fyrir íbúa og starfsmenn. En við erum líka sannfærð um að það séu miklir möguleikar á Hlévangi. Við höfum skoðað hjúkrunarheimili t.d. í Danmörku sem eru í eldri húsnæði en íbúar og starfsmenn hafa breytt starfseminni með ríkari áherslur á heimilisnálgun með mjög góðum árangri og öllum til hagsbóta, bæði þeim sem þar búa og þeim sem þar starfa“, segir Pétur.
Sjálfræði íbúa verði virt
- Hver er hugmyndafræðin sem þið vinnið eftir og verður innleidd á hjúkrunarheimilinu á Nesvöllum?
„Reyndar verður hugmyndafræði Hrafnistu Kópavogi innleidd á bæði heimilin, á Nesvöllum og Hlévangi. Einn stærsti munur á „gömlu“ nálguninni og þeirri nýju er að við leggjum mikla áherslu á þátttöku íbúa í daglegu lífi; að sjálfræði íbúa sé virt og að styrkleikar allra séu í hávegum hafðir. Þetta gerum við með ýmsum ráðum. Til dæmis er íbúum velkomið að ganga um öll rými heimilisins og eldhúsið og borðstofan er hjarta heimilisins, rétt eins og á venjulegu heimili. Fólk ræður m.a. fótaferðatímum, matartímum og baðtímum til að viðhalda sjálfræði sínu. Þetta getum við gert með því að gjörbylta hvernig við mönnum heimilin, þó ekki á kostnað þess að það séu færri eða fleiri á vöktunum, heldur með breyttu skipulagi. Þó að fólk sé komið á hjúkrunarheimili er margt sem fólk getur gert sjálft og við viljum horfa til þess. Við erum svo á staðnum til að hjálpa til með það sem það getur ekki gert. Varðandi starfsmenn þá má kannski segja að við séum líkari starfsmönnum á sambýlum hjá þeim sem sinna fötluðum. Við göngum í okkar eigin fötum, mötumst með íbúum, göngum í öll störf rétt eins og á venjulegu heimili. Við þurfum að hugsa hjúkrun og umönnun miklu lengra heldur en bara við rúmið. En það er enginn afsláttur gefinn á gæðastarfi og sýkingavörnum í þessari stefnu frekar en á öðrum Hrafnistuheimilum,“ segir Pétur.
Vilja starfsfólk af Suðurnesjum
- Hvernig verður ráðningu starfsmanna á heimilið á Nesvöllum háttað? Þetta er ein af stóru spurningunum sem brunnið hafa á fólki hér síðustu daga.
„Ljóst er að þegar Hrafnista hefur starfsemi 90 hjúkrunarrýma í mars á næsta ári þarf mun fleira starfsfólk, t.d. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða o.fl., til daglegrar starfsemi heldur en starfa á Garðvangi og Hlévangi í dag. Þó ekki sé sjálfgefið að allir sem vinna á Garðvangi og Hlévangi í dag fari að vinna hjá Hrafnistu (fólk verður að fá að velja það sjálft) eða hægt sé að bjóða öllum nákvæmlega eins störf og þeir eru með í dag. Við vonumst til að sem allra flestir úr þessum góða starfsmannahópi komi yfir til Hrafnistu. Þegar liggur fyrir hversu margir starfsmenn DS vilja færast yfir verður auglýst eftir fólki til viðbótar og ekkert bendir til annars en að langflestir sem þá sæki um verði íbúar á Suðurnesjum. Hrafnista er ekki fara flytja rútufarma af starfsfólki af höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja og á engan „lager“ af starfsfólki sem bíður eftir vinnu, eins og sumir virðast halda“.
„Vinnum okkur vonandi traust með tímanum“
- Hvað finnst ykkur um áhyggjurnar sem hafa komið upp á Suðurnesjum um að reksturinn sé ekki á höndum „heimamanna“?
„Við höfum auðvitað fylgst með umræðum sem verið hafa um málin. Okkur hefur fundist rétt og mikilvægt að kynna Hrafnistu og áherslur í starfsemi okkar, fyrir þeim sem málið snýst um, áður en við förum að tjá okkur opinberlega. Vegna þessa höfum við á síðustu dögum átt fjölda funda með stéttarfélögum, starfsfólki Garðvangs og Hlévangs og ekki síst heimilisfólki og aðstandendum þeirra á þessum stöðum. Viðtökur við okkar málflutningi hafa verið góðar þannig að við eigum ekki von á öðru en að með tímanum náum við að vinna okkur inn traust og gott orð hjá heimamönnum hér. HSS er mikilvægur hornsteinn í samfélaginu hér og þessum hornsteini þurfa Suðurnesjamenn auðvitað berjast fyrir af fullum krafti. Að okkar mati ætti tíminn og orkan, meðan fjárlög ársins 2014 eru ennþá ósamþykkt á Alþingi, að fara í að tryggja og styrkja grunnstarfsemi og þjónustu HSS. Öldrunarþjónusta á daggjaldaformi er því miður mjög óhentug til þeirra verka. Fjármunir til starfseminnar eru mjög naumt skammtaðir og þar er ekkert aukalega sem hægt er að nota til að styrkja aðra starfsemi. Ef fé er tekið úr þessum rekstri erum við bara að skerða þjónustu við aldraðra Suðurnesjamenn sem eiga það síst skilið,“ segir Pétur.
Geti nýtt uppsagnarákvæði
Þá segir Pétur stefnu Hrafnistu í þjónustu- og gæðamálum alveg vera óháða landsvæðum og lögheimilum fólks. Hún gangi einfaldlega út á að bjóða fjölbreytta og góða þjónustu til að viðhalda lífsgæðum aldraðra í samræmi við þarfir og vilja hvers og eins. Þetta hafi gengið mjög vel í þeim þremur sveitarfélögum sem Hrafnista starfi í í dag. Ef reynslan sýnir að þessi stefna henti ekki Suðurnesjamönnum séu auðvitað uppsagnarákvæði í samningnum sem hægt væri að nýta. „Ljóst er að hefðbundin stjórnandi á Hrafnistu, til dæmis deildarstjóri á hjúkrunardeild, hefur mun meiri völd og ábyrgð á rekstri deildar sinar og daglegu starfi þar heldur deildarstjórar DS hafa í dag. Þessa dagana er verið að ræða við núverandi stjórnendur á Garðvangi og Hlévangi hvort þeir hafi áhuga á stjórnunarstörfum hjá Hrafnistu. Í samningum er tekið fram að fulltrúar Hrafnistu fundi reglulega með fulltrúum Reykjanesbæjar og DS um gang mála í starfseminni og því hafa fulltrúar sveitarfélags möguleika á að koma á framfæri ábendingum, spurningum og athugasemdum um starfið. Í umræðum um nærþjónustu skal minnt á að sveitarfélagið hefur auðvitað í höndum sér áfram alla aðra þjónustu við aldraða en hjúkrunarrýmin. Starfsemi hjúkrunarrýma er út af fyrir sig mjög afmörkuð þjónusta við þá einstaklinga sem búa inn á hjúkrunarheimilinu. Önnur þjónusta við aldraðra er kannski sú þjónusta sem kalla má „nærþjónustu“ og hún er eftir sem áður í höndum sveitarfélagsins,“ segir Pétur.
Leitað verði samninga við heimafólk
- Hvernig verða næstu mánuðir í undirbúningi hjá ykkur. Hvað verður hjúkrunarheimilið stór vinnustaður og slíkt?
„Næstu mánuðir verða á efa annasamir. Það er í mörg horn að líta við opnum nýs heimilis og að móta nýja stefnu. En við trúum að með samstilltu átaki með sem flestum starfsmönnum Garðvangs og Hlévangs verði þetta skemmtilegur tími“.
- Hvað með kaup á þjónustu, máltíðir, viðhald, þrif og slíkt?
„Þessa dagana erum við á fullu að fara yfir ýmis praktísk mál varðandi starfsemina. Við reiknum fastlega með að önnur þjónusta en sú sem veitt er beint inn á hjúkrunarheimilunum, verði fengin héðan úr nágrenninu. Slíkt hlýtur að vera hagkvæmast. Við höfum þegar kannað möguleika á samstarfi við nokkur matvælafyrirtæki varðandi hádegisverði fyrir okkar fólk en einnig er verið að skoða hvort matur fyrir heimilin ætti kannski að vera eldaður á Hlévangi. Varðandi viðhald verður leitað eftir samstarfi við iðnaðarmenn hér á svæðinu en þær viðræður eru ekki hafnar ennþá,“ segja þau Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna og Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Kópavogi, í samtali við Víkurfréttir.