Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sviptur ökuréttindum í 12 mánuði fyrir að neita lögreglu um þvagsýni
Theodór var færður á lögreglustöð þar sem hann neitaði að gefa þvagsýni en heimilaði töku blóðsýnis.
Mánudagur 22. október 2018 kl. 19:17

Sviptur ökuréttindum í 12 mánuði fyrir að neita lögreglu um þvagsýni

- blóðprufa reyndist hrein og hinn handtekni ekki ákærður

Theodór Helgi Helgason var sviptur ökuréttindum í tólf mánuði fyrir að neita að gefa þvagsýni eftir að hann var handtekinn í sumar grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Hann veitti hins vegar heimild til þess að tekin yrði blóðprufa. Tveimur og hálfum mánuði eftir að blóðprufan var tekin fékk Theodór bréf frá lögreglustjóra þar sem honum var tilkynnt að prufan hafi verið hrein og hann yrði ekki ákærður. 
 
Theodór hafi verið sviptur ökuréttindum á meðan rannsókn málsins stóð. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Theodór hafa haldið að þar sem hann var ekki brotlegur við lög og blóðprufan hafi sannað það að þá væri honum heimilt að halda út í umferðina aftur.
 
Síðasta fimmtudag var Theodór svo stöðvaður af lögreglu þar sem hann segist hafa verið spurður hvort hann vissi ekki að hann væri að aka án ökuréttinda. Theodór sagðist standa í þeirri trú að hann væri með ökuréttindi þar sem hann hafi verið sviptur til bráðabirgða á meðan rannsókn málsins stæði og henni hafi lokið með tilkynningu um að ekki yrði ákært.
 
Málsatvik samkvæmt frásögn Theodórs eru þau að hann var stöðvaður á Hafnargötu í Keflavík við verslun Iceland þann 16. júní í sumar og grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna.
 
„Ég var handtekinn og fluttur á lögreglustöð og beðinn þar um þvagsýni. Ég neita því algjörlega þar sem ég hef gefið þvagsýni nokkrum sinnum og þau hafa komið hrein. Mér finnst bara mjög óþægilegt að það standi lögreglumaður og horfi á kynfærin á mér. Klósettskálinni er líka stillt upp þannig að það er opið beint inn til mín þannig að hver sem er sem labbar framhjá sér ber kynfærin á mér,“ segir Theodór. 
 
Hann segir lögreglu hafa haldið því fram að hún væri með vitni að því að hann væri í dagneyslu. Hann hafi neitað því og segist í samtali við Víkurfréttir vera með hreina sakaskrá. Lögreglan hafi þá sagt honum að hún hafi heimild til að taka úr honum blóð, sem hann hafi samþykkt.
 
Þegar Theodór var stöðvaður síðasta fimmtudag var honum tjáð að hann væri ennþá án ökuréttinda og fengi 125.000 króna sekt fyrir að aka án þeirra. Samkvæmt upplýsingum sem Theodór hafi aflað sér þá hafi lögreglustjóri heimild til að svipta fólk ökuréttindum í tólf mánuði neiti það að gefa þvagsýni. Skiptir þá engu hvort blóðsýni sem tekið sé sýni að neysla ávana- og fíkniefna hafi ekki átt sér stað.
 
Theodór segist hafa misst bílprófið því hann vildi ekki sýna lögreglunni á sér kynfærin. „Ég steig bara niður löppinni því þetta er bara kynferðislegt áreiti. Í hvert skipti sem maður er stoppaður af lögreglu þá titrar maður aðeins fyrst, því maður á von á því að vera tekinn niður á lögreglustöð til að taka á sér kynfæri,“ segir Theodór. 
 
Hann segist í samtali við Víkurfréttir alveg hafa verið tilbúinn til að gefa blóðsýni og vera án ökuréttinda þar til rannsókn væri lokið. „Út af því að ég pissa ekki fyrir þá og stend þarna úti með tippið fyrir framan lögregluþjón, sem ber að horfa á og fylgjast með að ég setji ekki eitthvað annað í bollann, þá er ég samt próflaus þrátt fyrir niðurstöðu blóðprufunnar“.
 
Theodór segist hafa aflað sér upplýsinga um það í dag að embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum sé eina lögregluembætti landsins sem hafi nýtt sér þessa heimild að svipta fólk ökuréttindum fyrir að neita að gefa þvagsýni.
 
„Ég er sekur þó ég sé saklaus,“ segir Theodór um þá niðurstöðu að hann sé án ökuréttinda þrátt fyrir að blóðprufan hafi leitt til þess að hann yrði ekki ákærður.
 
„Mér finnst þetta vera kynferðislegt áreiti að láta mann pissa fyrir allra augum. Ég myndi horfa öðruvísi á þetta ef maður fengi næði til þess,“ segir Theodór sem ætlar að gera tilraun til að öðlast ökuréttindin aftur. 
 
„Ég misskildi bréfið frá lögreglustjóra þar sem segir að hann ætli ekki að kæra mig og þar með taldi ég að ég hefði ökuréttindin“. Theodór á von á því að ökuleyfissviptingin verði kærð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024