Svínaflensan komin af krafti – Áríðandi leiðbeiningar!
Gríðarlegt álag hefur verið síðustu daga á heilbrigðisstarfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem svínaflensan hefur verið að stinga sér niður af miklu afli á Suðurnesjum. Mikið álag hefur verið á símakerfi HSS og einnig móttöku heilsugæslulækna.
Ingibjörg Steindórsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslusviðs, sagði í samtali við Víkurfréttir nú áðan að svo virtist vera að flensan væri að koma af fullu afli. Vegna þess þyrfti að hafa miklar gætur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og passa að þeir sem væru orðnir veikir smiti ekki aðra þegar þeir koma á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
„Um leið og okkur berst bóluefni fyrir svínaflensunni munum við auglýsa hvenær fólk úr forgangshópi getur pantað tíma hjá heilsugæslunni í þá bólusetningu. Það bóluefni sem berst til landsins á næstu dögum, er í mjög litlu magni og næst ekki að bólusetja aðra en heilbrigðisstarfsmenn, sem eru i fyrsta forgangi samkvæmt ákvörðun sóttvarnarlæknis“.
Eftirfarandi hópur fólks sem eru í forgangi eru:
Einstaklingar á öllum aldri með eftirtalda sjúkdóma:
- Alvarlega hjartasjúkdóma
- Alvarlega lungnasjúkdóma, þ.á m. astma
- Sykursýki
- Alvarlega nýrnabilun
- Alvarlega lifrarsjúkdóma
- Tauga- og vöðvasjúkdóma
- Ónæmisbilun
- Þungaðar konur.
- Offita (meira en 40 BMI)
Þeir einsaklingar sem eru almenn hraustir og tilheyra ekki áðurnefndum hópi, og komnir eru með einkenni influensunnar bent á eftirfarandi:
1. Fara eftir smitvarnarleiðbeiningum: þvo hendur, hósta ekki út í loftið, halda metersfjarlægð, halda sig heima í 7 daga frá því einkenni koma fram.
2. Fara vel með sig, taka hitalækkandi eftir þörfum, drekka vel.
3. Ef slæm öndunarfæraeinkenni s.s. grunur um lungnabólgu, gríðarlega harður hósti, erfiðleikar við öndun, hafa samband við heilsugæslu og meta hvort þörf á að koma í hlustun.
Þeir einstaklingar sem tilheyra áðurnefndum hóp og komnir eru með einkenni influensunnar:
1. Fara eftir áðurnefndum atriðum hér að ofan
2. Hafa samband við heilsugæsluna á fyrstu dögum einkenna og fá mat þeirra á aðstoð.